140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:48]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Í ljósi þess sem sagt hefur verið um þessa umræðu held ég að ég verði að byrja á því að taka skýrt fram að ég ætla að reyna að koma til móts við stjórnarmeirihlutann einu sinni sem oftar með því að tala sem minnst um þetta mál og reyna að ljúka mér frekar hratt af í ræðuhöldum. Þannig er líklega ekkert því til fyrirstöðu að hægt verði að greiða atkvæði um þetta mál í kvöld ef stjórnarliðar ætla að sleppa því yfir höfuð að tala um það.

Þingmenn hafa einmitt verið settir í mjög sérkennilega stöðu í þessu máli því að yfir þeim vofir hótun um að þeir verði sakaðir um málþóf ef þeir segja nokkur orð um þetta mál vegna þess að tíminn sem gefinn er til þess er svo skammur. Ef hver og einn þingmaður héldi tiltölulega stutta ræðu, 15 mínútna ræðu, um þetta mál og andsvör væru við hverja ræðu tæki það líklega í kringum 32 klukkustundir og til þess þyrfti um það bil sjö hefðbundna þingdaga. Ef menn hefðu gert ráð fyrir því að eðlileg umræða færi fram um þetta mál — án þess endilega að taka tillit til þess hversu stórt það er, það snýst um sjálfa stjórnarskrána — ef litið hefði verið á þetta sem hvert annað þingmál og gert ráð fyrir að menn hefðu tíma til að tjá sig um það, segja skoðun sína, velta upp kostum og göllum, hefði tekið nokkra daga að fara í gegnum umræðuna. Nú er ljóst að ef eðlileg umræða ætti sér stað um málið næðist ekki að klára það vegna þess hversu seint það kemur inn til þingsins. Því miður er þetta ekki eina málið frá ríkisstjórninni sem þannig er komið fyrir og raunar er það undantekning ef hin stærri mál ríkisstjórnarinnar komast tímanlega á dagskrá.

Það er auðvitað alveg óþolandi að þingmenn þurfi að sitja undir því að ef þeir ætli einfaldlega að halda ræðu um málið og velta því fyrir sér, séu þeir þar með að beita einhverjum brögðum og ætli sér að stoppa það. Eins og ég nefndi í upphafi ætla ég að reyna að koma til móts við stjórnarliða þrátt fyrir þetta og láta eina stutta ræðu nægja þó að vissulega sé tilefni til að halda margar langar ræður um þetta mál og hvernig að því hefur verið staðið.

Það er auðvitað með stökustu ólíkindum að þegar um er að ræða breytingar á sjálfri stjórnarskránni sé haldið á málum eins og gert hefur verið í þessu tilviki. Þetta hefur verið samfelld hrakfalla- og klúðurssaga af hálfu stjórnarmeirihlutans og nýjasta klúðrið voru þær sérkennilegu spurningar sem setja átti í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég held að hver einasti fræðimaður sem tjáði sig um málið hafi bent á að þær væru meingallaðar, aðferðafræðin á bak við þær væri stórgölluð. Það er í sjálfu sér mjög sérstakt hvernig mönnum tókst í þessu mikla áhugamáli sínu að setja fram tillögu sem var svo berskjölduð fyrir gagnrýni. Maður hefði haldið að í svona máli sem ljóst mátti vera að yrði umdeilt hefðu menn reynt að vanda sig meira, en svo varð ekki. Settar voru fram illskiljanlegar spurningar, að minnsta kosti óljósar, og í raun fól aðalspurningin í sér nokkurs konar þversögn. Í henni var spurt hvort menn styddu að lögð yrði fram tillaga sem ekki er til og menn hefðu þurft að hafa til að bera spádómsgáfu til að geta tekið afstöðu til spurningarinnar. Búið er að endurorða þessa fyrstu spurningu og gera hana ögn skýrari en viðbótarspurningarnar eru enn þá ákaflega sérstæðar og óljósar. Spurt er um hluti þar sem útfærslan skiptir öllu máli án þess að spyrja um útfærsluna og spurt um hluti þar sem skilgreiningin skiptir öllu máli án þess að skilgreiningin sé látin fylgja. Ég nefni sem dæmi spurninguna um þjóðareign.

Þetta mál hefur því ekki lagast eins mikið eins og maður hefði vonast til, því miður, og á víst ekki að gefa tíma til að laga það því til stendur að keyra það í gegn í dag með slíkum hraða að flutningsmenn gefa sér líklega ekki tíma til að fara í andsvör og svara spurningum sem þingmenn kunna að hafa um málið.

Ég vil nýta hluta af þeim stutta tíma sem ég ætla að leyfa mér að nota í umræðu um þetta mál til að gera dálitlar athugasemdir við orðræðuna sem viðhöfð hefur verið í umræðu um þetta má en í henni birtist í sinni tærustu mynd sú aðferð sem ríkisstjórnin notar til að stýra umræðunni um sjálfa sig og verja völd sín. Slík orðræða er mjög kunnugleg úr ríkjum þar sem stjórnvöld kenna sig við lýðræði og telja sig fulltrúa fólksins en eru oft og tíðum allt annað en það.

Í bók George Orwell 1984 er því lýst hvernig stjórnvöld fundu upp nýtt tungutak til að réttlæta stjórnarfar sitt. Það fól yfirleitt í sér öfugmæli. Þannig hét hernaðarráðuneytið sem stóð fyrir varanlegri styrjöld friðarmálaráðuneytið, kærleiksráðuneytið sá um eftirlit með borgurunum og þvinganir þegar á þurfti að halda og þar fram eftir götum. Hér verðum við hvað eftir annað vör við að stjórnarliðar nota mjög falleg og jákvæð orð en oft í öfugri merkingu. Menn kannast við alla umræðuna um gagnsæi sem átti að vera einkennisorð þessarar ríkisstjórnar en leyndarhyggjan hefur hins vegar aldrei, ég hugsa að ég geti bara fullyrt það, verið jafnmikil á Íslandi eins og nú. Nú er meira að segja orðið bannað að ræða það sem gerist á nefndarfundum. Ég taldi reyndar að nefndarfundir væru til að fá upplýsingar sem menn gætu svo rætt málin út frá í þinginu en nú þora menn ekki lengur að vitna í það sem gerist á nefndarfundum svo leyndarhyggjan er orðin alls ráðandi.

Svo er það lýðræðisástin, allt þetta tal um að stjórnarliðar einir séu fulltrúar fólksins og við heyrum aftur og aftur upphrópanir eins og þær frá 1. flutningsmanni þessa máls, hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur, sem hrópar aftur og aftur: Eru menn hræddir við fólkið, hræddir við að leyfa fólkinu að segja hug sinn? Þora þingmenn ekki að hlusta á þjóðina, og alls konar slíkar yfirlýsingar sem, eins og ég nefndi áðan, minna óþægilega á stjórnarfarið í löndum þar sem ekki er fjórflokkakerfi heldur í mesta lagi einn flokkur. En hvað er að marka þessar yfirlýsingar? Þær eru þversagnir vegna þess að fólkið sem notar þær sem mest stendur fyrir svona tillögum sem skila í rauninni engu, sem eru til þess hannaðar að blekkja kjósendur svo ríkisstjórnin geti haldið því fram að hún sé að tala máli þjóðarinnar, en notaði þjóðaratkvæðagreiðslu, sem ætti að vera nokkuð sem menn taka mjög alvarlega, eingöngu til að ná því fram sem alltaf stóð til að ná fram af hálfu stjórnvalda.

Hið sama má segja um það þegar því er haldið fram að ríkisstjórnin styðji beint lýðræði og sú tillaga sem við ræðum hér sé til marks um það. Hvað í ferli þessarar ríkisstjórnar gefur til kynna að hún styðji raunverulega beint lýðræði? Ekki neitt. Þvert á móti bendir allt til þess að ríkisstjórnin óttist fátt eins mikið og beint lýðræði og þjóðaratkvæðagreiðslu vegna þess að fulltrúar meiri hlutans á þingi hafa hvað eftir annað barist af mikilli hörku og ég leyfi mér að segja ósvífni gegn því að almenningur fengi að greiða atkvæði í stórum málum. Svo kemur þetta sama fólk og veifar tillögum sem eru mjög vanhugsaðar, sem allir sérfræðingar sem þær skoða segja meingallaðar, og telja þær til marks um að það sé lýðræðissinnar. Þetta er kannski það leiðinlegasta við stjórnmálin að hve litlu leyti orð og efndir fara saman en það er þó sérstakt vandamál hjá þessari ríkisstjórn. Það nær í rauninni til allra sviða. Ég ætla ekki að fara að rekja það allt saman hér, talið um skjaldborgina og heimilin hjá ríkisstjórn sem hefur svo glutrað niður öllum tækifærum sem henni hafa boðist til að taka á skuldavanda heimilanna, eða velferðarbrúin sem átti að koma í veg fyrir að fólk fyndi fyrir efnahagslegu áfalli á undanförnum árum. Allt reyndust það innantóm orð.

En við höfum þó haft stjórnarskrána, íbúar landsins hafa þó haft stjórnarskrána til að reiða sig á þegar stjórnarfar landsins er með þeim hætti sem ég lýsti, stjórnarfar sem reyndar er svo óstöðugt og óáreiðanlegt að það hefur komið Íslandi á lista yfir lönd þar sem pólitísk áhætta er sérstakt áhyggjuefni fyrir fjárfesta, Ísland er komið á lista með löndum eins og Egyptalandi, Rússlandi og löndum Suður-Ameríku hvað það varðar eftir að þessi ríkisstjórn tók við. En í þeirri pólitísku óvissu höfum við þó haft þann öryggisventil sem stjórnarskráin hefur veitt. Því hefur maður óneitanlega áhyggjur af því ef þeim öryggisventli verður kippt í burtu.

Nú er ég mjög hlynntur því að gerðar verði breytingar á stjórnarskránni og hún uppfærð og lagfærð. En ef menn ráðast í þá vinnu á þeim forsendum sem lýst er í þessum tillögum hef ég verulegar áhyggjur af því hvernig það mundi enda. Hætt er við því að þá yrði stjórnarskráin sjálf aðeins liður í að auka á hina miklu óvissu sem ríkisstjórnin hefur við haldið.

Nú er ég ekki að segja að tillögur stjórnlagaráðs séu allar ómögulegar. Ég hef sagt frá upphafi að það megi endilega nota þær til að ræða breytingar á stjórnarskránni, en á þeim eru vissulega gallar og ég gef mér það eiginlega að flestir stjórnlagaráðsfulltrúar fallist á að á þeim séu gallar og eðlilegt sé að þingið og sérfræðingar ræði í þaula hvernig megi bæta úr þeim. Þess vegna veltir maður fyrir sér, hverjar eru afleiðingarnar af því ef þessi tillaga, meginspurningin, verður samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu? Hvernig ber að skilja það? Á þingið þá að reyna út í ystu æsar að láta stjórnarskrána líta út eins og hún kemur frá stjórnlagaráðinu, jafnvel þó að komi í ljós að ýmislegt megi betur fara? Á þá samt að leitast við að hafa stjórnarskrána eins og hún kom frá stjórnlagaráðinu, svo framarlega sem hún gangi ekki í berhögg við alþjóðasamninga? Hvað ef tillögunni er hafnað, ef menn segja, svo ég vitni beint í tillöguna, með leyfi forseta: „Nei, ég vil ekki að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi eða nýrri stjórnarskrá“? Á þá ekki að nota neitt úr tillögum stjórnlagaráðs þegar kemur að því að endurskoða stjórnarskrána? Er þá allt sem þar kemur fram komið á bannlista af því að ekki má leggja það til grundvallar, eða skiptir kannski engu hvað menn kjósa í þessu? Menn muni áfram ræða stjórnarskrána og sumir muni tala fyrir tillögum stjórnlagaráðs í mismiklum mæli og atkvæðagreiðslan skipti í sjálfu sér ekki máli. Þetta er eitt af því sem er algerlega óljóst við allt þetta ferli. Hefur það einhvern tilgang annan en að gefa þingmönnum stjórnarliðsins tækifæri til að koma hér upp og halda því fram að þeir séu fulltrúar þjóðarinnar, talsmenn beins lýðræðis, þegar það er einmitt stjórnarandstaðan sem hefur miklu fremur beitt sér fyrir vilja þjóðarinnar og beinu lýðræði á undanförnum árum? Er þetta allt hluti af einhverju sjónarspili? Ef svo er, sem því miður mjög margt bendir til í þessu ferli öllu, er það sérstaklega miður af því að um er að ræða stjórnarskrá Íslands.

Maður hefur séð þessa pólitísku leiki hjá stjórnarflokkunum aftur og aftur í hinum ýmsu málum. En að leyfa sér að nota stjórnarskrána í þeim tilgangi er býsna langt gengið. Nú verð ég aftur að hafa þann fyrirvara á að með þessu er ég ekki að segja að allir sem styðja þetta mál eða eru hrifnir af tillögum stjórnlagaráðs séu með einhvers konar leikaraskap, að hugur fylgi ekki máli hjá öllu því fólki. Ég er alls ekki að halda því fram. Ég er bara að segja að þeir sem keyra þetta mál áfram í þinginu á þennan hátt, halda svona á málum, leggja fram svona óljósar spurningar sem maður sér ekki hvað á að koma út úr, keyra málið áfram á nokkrum dögum og búa til slíka tímapressu að þingmenn þora ekki að stíga í ræðustól til að fjalla um málið af ótta við að vera sakaðir um málþóf, það fólk ber ekki næga virðingu fyrir stjórnarskránni. Ég hef fulla samúð með þeim sem eru hrifnir af tillögum stjórnlagaráðsins og stjórnlagaráðsfulltrúum sem hafa lagt á sig mikla vinnu við að undirbúa þetta mál og raunar er verið að gera því fólki grikk, ekki síður en hinum sem hafa efasemdir um það hvernig haldið hefur verið á málinu á Alþingi.