140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[15:07]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, það má taka undir með hv. þingmanni að nánast sé skylda þingmanna að taka þátt í umræðum um breytingar á stjórnarskránni. Hvað varðar spurninguna um það hvers vegna þeir gera þeir það ekki þá held ég að aðallega séu tvær ástæður fyrir því. Annars vegar veit hluti þingmanna, stjórnarliðsins þar á meðal, að þetta er fyrst og fremst sýndarmennska af hálfu stjórnarforustunnar og þeir í raun skammast sín, held ég að megi segja, fyrir það hvernig að þessu er staðið. Svo eru það hinir sem styðja þetta en hafa komið málinu í þá fáránlegu stöðu að tíminn til að ræða það og fara yfir það er svo skammur að ef þeir ynnu þetta almennilega og rökræddu málið við okkur brynnu þeir inni á tíma, þá væri ekki lengur tími til að koma þessu í þjóðaratkvæðagreiðslu vegna þess að til að svo megi verða þarf að klára atkvæðagreiðslu um málið fyrir miðnætti í kvöld. Þetta er náttúrlega bara enn eitt dæmið um hversu illa hefur verið haldið á þessu máli sem snýst, eins og ég sagði, ekki um innihaldið heldur að búa til umbúðir sem nota má í auglýsingamennsku, lýsa því yfir að menn séu fulltrúar fólksins o.s.frv.

Hvað varðar gallana á því hvernig að þessu hefur verið staðið er of langt mál að telja þá upp. Þetta er orðið margra mánaða eða margra ára saga klúðurs á klúður ofan svo ég verð á þessum stutta tíma sem ég hef til að svara að velja bara eitt atriði. Það er akkúrat það skjal sem við ræðum núna. Menn búa til skjal með völdum spurningum, en spyrja ekki um margt af því sem hefur kannski verið aðalmálið í umræðunni um stjórnarskrána, (Forseti hringir.) sem menn hafa pólitísk áform um að ná í gegn og orða spurningarnar á það lúmskan hátt … (Forseti hringir.) Virðulegi forseti, ég verð að fá að klára á eftir.