140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[15:10]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Nú hefur stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd haft þetta mál í drjúgan tíma, það kom inn í þingið 4. október og stuttu seinna var það samþykkt og vísað til nefndar, þannig að hún hefur haft það til meðferðar í fimm mánuði og 16 daga. Ég ætla að bæta við einni spurningu þó að hv. þingmaður eigi eftir einhverju ósvarað: Telur hv. þingmaður það vera eðlilega verkstjórn í svona stóru máli að það taki fimm og hálfan mánuð í nefndinni að fjalla um það? Við heyrum líka að nefndin hafi sjálf ekkert fjallað efnislega um málið, hún hafi fengið til sín sérfræðinga sem allir eða flestir voru á móti þessari tillögu að nýrri stjórnarskrá en hún hafi sjálf ekki fjallað efnislega um málið enda kemur ekki neins staðar fram neitt efnislegt um það.

Getur verið að menn ætli að senda í þjóðaratkvæðagreiðslu tillögur að frumvarpi að nýrri stjórnarskrá fyrir Ísland — þetta eru ekki bara breytingar á stjórnarskrá heldur eitt stykki ný stjórnarskrá — án þess að hafa farið efnislega yfir þær? Getur verið að menn ætli sér að láta hinn almenna kjósanda greiða atkvæði um drög að stjórnarskrá sem ekki hefur verið farið yfir, ekki einu sinni búið að leiðrétta villur, augljósar villur eða annað slíkt? Ég vil spyrja hv. þingmann hvort það sé ekki dapur vitnisburður um lélega verkstjórn í þeirri nefnd sem hefur fjallað um þetta í fimm mánuði og 16 daga, og svo erum við komin í tímaþröng og vinnum þetta á nóttunni með afbrigðum og með hraði.