140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[15:12]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var ekki búinn að klára athugasemdir mínar við orðalag spurninganna og til hvers þær virðast ætlaðar. Þær virðast í rauninni ekki ætlaðar til að fá neitt nýtt fram heldur frekar til að nýtast í umræðunni af hálfu stjórnarliðsins. En það tengist spurningu hv. þingmanns í seinna andsvari hans, hvað mér þyki um að til standi að láta fólk greiða atkvæði um stjórnarskrá sem ekki hefur verið farið yfir.

Það er því miður kannski í samræmi við það sem áður hefur tíðkast á þessum bæ, á ríkisstjórnarheimilinu, og talið sjálfsagt. Hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra ætluðust til þess að þingmenn flokka sinna greiddu atkvæði um Icesave-samningana án þess að hafa lesið þá yfir, svo að þetta er ekkert nýtt. Við höfum séð þetta áður. Jafnvel í samningum sem snertu hundruð milljarða átti fólk bara að greiða um þá atkvæði án þess að hafa kynnt sér þá eða farið yfir þá. Það má því segja að þetta sé framhald af ákveðinni verklagshefð hjá ríkisstjórninni en sú hefð held ég hins vegar að sé afar óæskileg.

Ég get svarað þeirri spurningu hv. þingmanns hvað mér þyki um þessa verkstjórn mjög skýrt: Hún er algerlega óforsvaranleg á Alþingi, ég tala nú ekki um þegar rætt er um stjórnarskrá lýðveldisins, og hefur ekkert með ást á lýðræði að gera. Þetta snýst þvert á móti um að stýra umræðunni í gegnum spuna, orðræðuna og blekkingar frekar en gefa fólki þann rétt sem það ætti raunverulega að hafa til að kveða upp úr um málin. Eins og hv. þingmaður kom inn á höfum við framsóknarmenn haft áhuga á breytingum á stjórnarskránni en það er ekki sama hvernig að þeim er staðið. (Forseti hringir.) Þegar kemur að breytingum á stjórnarskrá þarf að vinna hlutina af skynsemi.