140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[15:16]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Spurningunni í lokin er auðsvarað. Nei, ég þekki engin dæmi þess en við skulum reyna að ímynda okkur að slíkt gerðist, t.d. í landi eins og Bretlandi, að breskum stjórnvöldum dytti í hug að setja í þjóðaratkvæðagreiðslu ókláraða tillögu, stjórnvöld ætluðu sér sjálf að klára hana einhvern veginn seinna en ætluðu fyrst að láta almenning kjósa um hana á meðan fólk vissi ekki hvernig hún kæmi til með að líta út.

Hvernig yrði umræðan í Bretlandi ef bresk stjórnvöld reyndu slíkt? Menn kæmust ekki upp með það þar. Þar væri ekki hægt að blekkja almenning eða fjölmiðla með hrópum og köllum um að menn væru fulltrúar fólksins. Þar mundu menn lesa um það í öllum blöðum, þeim hægri og vinstri sinnuðu og á miðjunni, dag eftir dag, hversu fráleitt pólitískt bragð væri um að ræða. Þar mundu sérfræðingar og fræðimenn lýsa vanþóknun sinni í fjölmiðlum og umræðan yrði þar krufin til mergjar. Það væri óhugsandi að slík tillaga næðist í gegn í landi með svo þróaða hefð fyrir lýðræðislegri umræðu. Það er mjög erfitt að ímynda sér að þetta gæti gerst mjög víða, þ.e. í þróuðum vestrænum ríkjum. Hins vegar höfum við auðvitað ýmiss konar dæmi um sýndarlýðræði annars staðar en það hefur allt verið að þróast til betri vegar víðast hvar í Evrópu á undanförnum árum.

Við skulum bara spyrja okkur um þessar tillögur: Færa þær okkur eitthvað nær því að vita hvað fólk vill? Nei, þær gera það ekki vegna þess hvernig spurningarnar eru orðaðar. Það er hægt að túlka svörin á svo ólíkan hátt. Færa þær okkur eitthvað nær hvað varðar vinnuna við endurskoðun stjórnarskrár? Nei, þetta gerir það ekki, þetta gerir vinnuna enn þá flóknari (Forseti hringir.) og óljósari svo að með þessu er ekki stigið skref fram á við heldur er þetta ferli, sem er þegar orðið mjög flókið, gert enn flóknara.