140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[15:21]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Að sjálfsögðu væri eina vitið að bera þetta undir þjóðina þegar búið er að fullvinna það, þ.e. þegar komið er eitthvað til að greiða atkvæði um, að menn séu ekki settir í þá stöðu að þurfa að geta sér til um hvernig tillagan muni líta út í framtíðinni.

Það má líka spyrja í skoðanakönnunum ef menn vilja taka upp þá stjórnarhætti sem er svo sem áhugaverð stjórnmálafræðileg tillaga, þ.e. að fara að stjórna eftir skoðanakönnunum. Þá mundu skoðanakannanir, eins og í þessu tilviki, reyndar að öllum líkindum gefa betri mynd af afstöðu almennings en að setja óljósar spurningar í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Eins og kom fram í máli hv. þingmanns er hún fyrst og fremst skoðanakönnun, þó ekki sérstaklega vönduð. Það er hætta á því að mætingin verði mjög takmörkuð og að þeir sem mæta séu þá ekki lýsandi fyrir þjóðina í heild. Jafnframt eru spurningarnar svo óskýrar að þær teldust ekki góðar og gildar í faglegri skoðanakönnun, eins og þingmenn hafa fengið að heyra frá sérfræðingum á því sviði. Ef þetta snerist raunverulega um að kanna vilja almennings og stjórnvöld hugsuðu sér þá að taka ákvarðanir út frá því sem væri vinsælast hverju sinni hjá meiri hluta þjóðarinnar væri bæði einfaldast og gæfi besta mynd af raunverulegri stöðu að framkvæma einfaldlega stóra skoðanakönnun.

Svo geta menn farið út í þá umræðu hvort það þýði ekki að það eigi að taka þá stjórnarhætti upp í öðrum málum líka og að við verðum með ríkisstjórn sem verður í því að framkvæma eða leiða í lög niðurstöður skoðanakannana.