140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:14]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður notaði þýska orðið „Besserwisser“ sem þýðir maður sem þykist vita meira en hann veit. Mér finnst það harður dómur um sérfræðinga sem kallaðir eru fyrir nefndir á Alþingi að gefa þeim slík nöfn. Ég fullvissa hv. þingmann um að þetta orð hefur ekki jákvæða merkingu í þýsku máli.

Ég spurði um þessar spurningar sem öllum er svarað í stjórnarskránni. Með því að greiða atkvæði með stjórnarskránni er fólk búið að taka afstöðu til þeirra. Af hverju er verið að spyrja þeirra aftur? Af hverju er verið að spyrja í þessum nýju drögum aftur sömu spurninga og búið er að taka afstöðu til í stjórnarskránni?

Ég nefndi þrjú dæmi, um auðlindirnar, þjóðkirkjuna og persónukjörið, það er í stjórnarskránni líka, í 2. mgr. 39. gr. Það er búið að bera upp allar spurningarnar og ég spurði hv. þingmann um rökfræðina á bak við þetta.