140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:20]
Horfa

Magnús M. Norðdahl (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Byrjum á endanum. Það er alveg rétt, stjórnmálamenn hafa verið mjög ósáttir við málskotsrétt forseta. Sem betur fer er ekki verið að spyrja stjórnmálamenn í þessari atkvæðagreiðslu sem nú stendur til að fari fram, góðu heilli. Nú á að spyrja þjóðina, hv. þm. Birgir Ármannsson, og það er gott.

Það er erfitt að svara spurningunni aftur um það að eitthvað sé innifalið í því sem áður var vegna þess að ég er búinn að fara yfir það í tveimur andsvörum og ég held að ég láti það duga. Ég er hins vegar sammála þingmanninum um að ef til vill sé rétt að spyrja um eitthvað fleira. Eins og ég sagði við hv. þingmann og hef sagt við hann áður er ég tilbúinn til þess ef það er raunverulegur vilji til þess að ná niðurstöðu um það í góðri trú og ná góðri sátt um það.

En aðeins um stjórnarmyndunarhlutverk forseta því að spurningin er svona frá hv. þingmanni í breytingartillögunni:

„Vilt þú að í stjórnarskrá verði ákvæði þar sem forseta Íslands er falið að stýra myndun ríkisstjórnar?“

Forsetinn hefur hlutverk við myndun ríkisstjórnar og hann hefur farið ágætlega með það. Sumum stjórnmálamönnum líkar það hins vegar ekki, eins og á við um margt annað sem forsetarnir gera. Þess vegna er þjóðin svona ánægð með forsetann, sjáðu til. Ég held að það sé engin ástæða til að spyrja að þessu vegna þess að það hefur verið í farsælum farvegi. Í tillögum stjórnlagaráðs er sú framkvæmd sem verið hefur við myndun ríkisstjórnar fest nokkurn veginn í sessi með nokkuð skýrum hætti. Það geta þó verið á þessu skiptar skoðanir.