140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:21]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er svo margt sem er umdeilt, þar á meðal ummæli hv. þingmanns um forsetann sem ég veit ekki hvort allir í þessum sal mundu taka undir. Ef við erum að horfa á stjórnarmyndunarhlutverkið er þetta engu að síður atriði sem hefur verið töluvert rætt um og um það deilt. Það liggur fyrir að túlkanir manna á þeim texta sem er að finna í tillögum stjórnlagaráðs hafa verið mismunandi. Ýmsir hafa haft betur í þeirri viðureign og ætla ég ekki að skera úr um það, en þarna er um að ræða tilraun af hálfu okkar hv. þm. Ólafar Nordal til að fá fram einhvers konar afstöðu þjóðarinnar. Ég ætlast ekki til þess að fá svarið já eða nei en ef á annað borð er farið út í að keyra spurningavagn finnst mér þetta með forvitnilegri spurningum.