140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:54]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ef hæstv. forsætisráðherra sér einhvers staðar frið geti hún ekki hætt fyrr en hún er búin að koma á ófriði. Það er alveg ótrúlegt og þannig er þingferill hæstv. forsætisráðherra búinn að vera. Ég held að það skipti engu máli hvort hæstv. forsætisráðherra hefur verið í litlum flokki, stórum flokki, í samstarfi við hægri flokk eða vinstri flokk, henni hefur ávallt tekist að koma af stað ófriði. (Gripið fram í.)

Ef einhvern tíma hefur verið nauðsyn til þess hæstv. forsætisráðherra fengi menn til að slíðra sverðin og vinna saman var það við þær aðstæður sem voru hér þegar hæstv. forsætisráðherra tók við völdum. Það er stóralvarlegt mál og það er sláandi að horfa upp á það hvernig hv. stjórnarþingmenn dansa alveg gagnrýnislaust eftir því sem hæstv. forsætisráðherra segir. Þeir sem hafa samvisku hafa yfirgefið skútuna en aðrir standa í beinni röð og elta og hlýða því samviskusamlega og nákvæmlega, alveg sama hvaða vitleysa er borin á borð. Hv. þingmaður spyr: Hvað erum við búin að fá að heyra frá hv. stjórnarliðum sem komu með þetta mál á elleftu stundu vanbúið inn í þingið? Málið hefur ekki fengið venjulega þinglega meðferð þó að það sé almenn regla og hugmyndin með þinglegri meðferð er að mál séu send til umsagnar, ég tala nú ekki um þegar um grundvöll stjórnskipunarinnar er að ræða.

Hvernig hefur málflutningur hv. stjórnarliða verið? Það er bara einhver derringur um að við skulum bara feta í fótspor þeirra og … (Forseti hringir.) Nú sjáum við aftur einn ágætan stjórnarliða í hlutverki virðulegs forseta sem …

(Forseti (ÁI): Þingmaðurinn er beðinn að víkja úr stólnum þegar forseti slær í bjölluna. Tími hans er útrunninn.)

Já, já, það mun gerast, virðulegi forseti. Við munum taka meiri umræðu um þetta.

(Forseti (ÁI): Forseti vill minna hv. þingmenn á að virða tímamörk.)