140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[17:01]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég kom inn á ákvæðið um fullveldisframsal í máli mínu og mikilvægi þess að fullveldi sé tryggt í stjórnarskrá. Ég fjallaði líka um breytingartillögu hv. þingmanns og félaga hennar, hv. þm. Birgis Ármannssonar í minni hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þar sem gert er ráð fyrir því að setja inn spurningu þar sem spurt væri að því hvort þjóðin vildi framselja fullveldið með þessum hætti, vegna þess að ákvæðið í 111. gr. er mikil breyting á stjórnarskránni.

Ég kemst ekki að annarri niðurstöðu en þeirri að það stafi einfaldlega af því sem ég rakti í máli mínu áðan, þ.e. að það henti ekki málflutningi ríkisstjórnarinnar. Það hentar þeim ekki að spyrja að þessu vegna þess að þeir óttast að svarið verði ekki það sem ríkisstjórnin vill fá fram. Ríkisstjórnin vill augljóslega ekki að niðurstaðan verði sú að ekki megi framselja ríkisvald til alþjóðlegra stofnana því að þá væri grunnurinn undan Evrópusambandsumsókninni farinn, rétt eins og ríkisstjórnin vill ekki að spurt verði að því hvort þjóðin vilji draga aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu til baka því að þá væri grunnurinn undan aðildarumsókninni farinn og líka undan ríkisstjórninni.

Varðandi það hvað býr að baki hjá hv. þingmönnum Vinstri grænna og hæstv. ráðherrum verð ég að reyna að koma inn á það í seinna andsvari mínu því að það verður varla skýrt út á þeim tíu sekúndum sem ég á eftir.