140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[17:27]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Hann fór nokkuð yfir þær breytingartillögur sem lagðar hafa verið fram í þessari umræðu ásamt því að fara nokkuð yfir þær spurningar sem meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar telur að þurfi að bera undir þjóðina í þessari skoðanakönnun.

Mig langar til að varpa því hér fram, ekki síst vegna þeirrar umræðu að hópur fólks vilji ekki breyta stjórnarskránni í tilteknum efnum, heldur vil ég meina að sá hópur vilji ekki gera það á grundvelli tillagna stjórnlagaráðs, mér urðu það töluvert mikil vonbrigði að meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar skyldi ekki líta til þess hóps þegar þær spurningar voru útbúnar til þess að kanna það hversu stór hluti þjóðarinnar væri tilbúinn til að fara í ákveðna endurskoðun á öðrum grunni en þeim sem þarna kemur fram. Það er reyndar á þeim nótum sem við hv. þm. Birgir Ármannsson ákváðum að leggja fram breytingartillögu sem er tvíþætt og snýr reyndar líka að því að komast að því hversu stór hópur fólks vill ekki breyta stjórnarskránni neitt, það kann líka að vera. Mig langar til að biðja hv. þingmann um að svara því eða lýsa sínu viðhorfi til þessa galla, sem ég vil kalla, á þeim spurningum.

Enn fremur vil ég spyrja hv. þingmann: Hann nefndi að hann hefði áhuga á að breyta tilteknum þáttum stjórnarskrárinnar, nefndi í því efni auðlindaákvæðið — reyndar er það í ríkisstjórnarsamstarfi okkar tveggja flokka, það var yfirlýst stefna að koma slíku ákvæði í stjórnarskrá — hann nefndi líka skipun dómara. Hvaða aðrir þættir eru það sem hv. þingmaður gæti hugsað sér að lytu að endurskoðun þegar kemur að endurskoðun stjórnarskrárinnar?