140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[17:38]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir að koma í andsvar og sérstaklega þakka ég ráðherranum fyrir að lýsa stuðningi við að tillaga Vigdísar Hauksdóttur komist á dagskrá og að um hana verði greidd hér atkvæði. Eftir því sem ég skildi hæstv. ráðherra er hann stuðningsmaður tillögunnar. Ég fagna þessu mjög og hvet hæstv. ráðherra til að tryggja það í sínum flokki, við sína félaga, að svo verði.

Ég verð að viðurkenna, frú forseti, að ég missti aðeins þráðinn þegar hæstv. ráðherra var að tala um að velja á milli.

Síðan spyr ráðherrann hvort Framsóknarflokkurinn ætli að taka þátt í að eyðileggja þann möguleika að kosið verði um stjórnarskrá samhliða forsetakosningum. Í fyrsta lagi er mér ekki kunnugt um að hér sé í gangi eitthvert svakalegt plott um að eyðileggja þann möguleika. Ég bara þekki það ekki, frú forseti, mér hefur ekki verið boðið í slíkan félagsskap ef hann er til. Í öðru lagi held ég að það hljóti að vera undir hverjum og einum þingmanni komið hvort hann nýtir þann ræðutíma sem honum er skammtaður. Mér finnst dapurlegt að stjórnarliðar skuli draga úr mönnum að tjá sig um þetta stóra og mikla mál. Það er mjög mikilvægt að það sé rætt. Hæstv. ráðherra getur þó að sjálfsögðu, eins og alltaf, treyst orðum framsóknarmanna, treyst því sem við höfum sagt á opinberum vettvangi um þetta mál. Við erum ekki að fara að tefja eða eyðileggja eitt eða neitt í þessu máli, það er ekki þannig, frú forseti. En að sjálfsögðu ætla þingmenn Framsóknarflokksins að segja sína skoðun á málinu. Þær skoðanir eru nokkuð ólíkar, það verður að segjast eins og er. Kannski er ekkert athugavert við það þegar við ræðum stjórnarskrána. En ég fullvissa hæstv. ráðherra um að sú (Forseti hringir.) yfirlýsing sem ráðherrann vitnaði í stendur.