140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:15]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er dálítið athyglisvert þegar hv. þm. Bjarni Benediktsson talar um mótsagnir í þessu máli, tímaskort og þriggja ára tímabil sem hafi farið í ekki neitt og beitir sem einhverju bragði gegn því að hér megi fara fram með þá þingsályktunartillögu sem hefur legið fyrir og allir vita hvaða tímamörk eru á. (Gripið fram í.) Sjálfstæðisflokkurinn þrengdi þau tímamörk með því að hafna því í síðustu viku að þingið fengi að taka málið á dagskrá þá. (Gripið fram í: Rangt.) Ef einhverjir hafa staðið gegn því (Gripið fram í.) að þingið fengi þann rýmri tíma sem hefði þurft að mati einhverra voru það sjálfstæðismenn. Sjálfstæðisflokkurinn hefur haldið uppi málþófi í þessu máli. Það veit öll þjóðin. Það veit allur þingheimur. Ég sé ekki betur en að annaðhvort sé búinn að tala eða sé á mælendaskrá stærstur hluti þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Allir eru með sömu ræðurnar og í andsvörum fara þeir fram með sömu spurningar til félaga sinna til að halda uppi umræðu um allt og ekki neitt.

Ég segi: Mótsagnirnar og þverstæðurnar í þessu máli byggja á því að Sjálfstæðisflokkurinn, bæði í fyrri umræðu og nú, þótt búið sé að gera ítarlegar breytingar á þessum tillögum, talar á móti þessum tillögum og er alfarið gegn því að þetta fari í atkvæðagreiðslu. Samt flytur hann ítarlegar breytingartillögur. Ég spyr: Er flokknum alvara með þessum breytingartillögum? Ef það er alvara á bak við þær, vill flokkurinn þá að vilji þingsins komi fram í atkvæðagreiðslu um þessar tillögur sem og aðrar? Ef svo er, ætlar þá Sjálfstæðisflokkurinn að virða þau tímamörk sem liggja fyrir, þ.e. að þetta verði afgreitt fyrir miðnætti í kvöld? Eða er þetta bara sýndarmennska sem er sett á svið til að tefja málið?