140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:17]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég get ekki borið ábyrgð á því hvernig mælendaskráin þróaðist hér í dag. Þingmenn frá Samfylkingunni hafa talað. Voru þeir í málþófi? Hér hefur líka talað þingmaður frá Hreyfingunni sem vill framgang þessa máls. Var hann í málþófi? Voru þingmenn Framsóknar í málþófi líka? Nokkrir þingmenn frá Sjálfstæðisflokknum hafa talað. Þeir hafa allir verið í málþófi samkvæmt þessari skilgreiningu. Sjálfstæðisflokkurinn tekur ekki ábyrgð á því að málið er svona seint komið fram. Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft mjög skýra afstöðu til þess að með þverhandarþykkri skýrslu stjórnlaganefndar, niðurstöðum þjóðfundarins og þeirri vinnu sem unnin var í stjórnlaganefnd frá árinu 2007 og áfram sé þingið komið með fullnægjandi gögn til að hefja vinnu við endurskoðun stjórnarskrárinnar. Stjórnarflokkarnir hafa hafnað því. Þeir vilja halda áfram einhvers konar samráðsferli. Nú vilja þeir fara í skoðanakönnun með tugmilljónakostnaði (Gripið fram í: Ertu á móti því?) og bæta þannig ofan á. Ég sé á þessu stigi enga ástæðu til að fara í skoðanakönnun. Mesta samráð sem nokkru sinni hefur verið viðhaft við endurskoðun á stjórnarskránni hefur þegar farið fram. Nú tel ég tíma kominn til þess að við vinnum vinnuna okkar. Þar er ég sammála til dæmis stjórnlagaráðsfulltrúanum Pawel Bartoszek. Ég er líka sammála formanni stjórnlagaráðs, Salvöru Nordal, um að tími sé kominn til að þingið taki afstöðu til málanna áður en leitað er til þjóðarinnar. Það er mín afstaða. Hún er málefnaleg (Gripið fram í.) og menn eiga að hætta tali um að við séum í málþófi fyrir það eitt að koma skoðunum okkar á framfæri.

Vilji menn hins vegar fara í skoðanakönnun fyrir nokkra tugi milljóna og bæta þannig ofan á 600 milljónirnar sem ekki hafa þó dugað til þess að koma fram með frumvarp á þinginu verða menn sjálfir að bera ábyrgð á því. (Forseti hringir.) Það verður ekki gert með mínum stuðningi.