140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:19]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í raun og veru allt sem segja þurfti í þessu máli. Hann sagði: Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki skoðanakönnun. Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki samráð við þjóðina. (BjarnB: Ég sagði það ekki.) Ég heyrði ekki betur en að hann segði það. Hann vildi ekki þetta samráð. Hann vildi (JónG: Við lögðum það til …) að þingið færi í að vinna úr þessu máli. (JónG: Kjaftæði.) Hv. þm. Jón Gunnarsson, ég hef orðið, þú getur örugglega fengið það hér síðar, ég veit ekki betur en að allur þingflokkur Sjálfstæðisflokksins sé búinn að setja sig á mælendaskrá. Hann fær örugglega þann tíma sem hann vill (Gripið fram í.) enda er það markmið hans (Forseti hringir.) í þessari umræðu —

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður um hljóð fyrir ræðumann og ekki samtöl úr sal.)

Það er markmið hans, eins og hefur komið skýrt fram og þjóðin horfir á agndofa, að sjá til þess að þetta mál gangi fram. Það er akkúrat þversögnin og sýndarmennskan í málinu.

Formaður Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Bjarni Benediktsson, svaraði mér engu þegar ég spurði: Hver er meiningin í því að flytja fjöldann allan af breytingartillögum ef menn lýsa því yfir á sama tíma að þeir vilji enga skoðanakönnun, vilji ekki kosningu, vilji ekki samráð við þjóðina? Fólk er tilbúið að leggja fram fjöldann allan af breytingartillögum og láta líta svo út sem það sé efni sem ástæða er til að spyrja þjóðina um.

Ég get alveg tekið undir að hér eru ágætistillögur sem væri þess virði að ræða og fara yfir og fá fram vilja þingsins til þess í atkvæðagreiðslu hvort þær spurningar eiga að vera með á þeim spurningavagni í þessari skoðanakönnun sem verið er að fara fram með. Það er verið að fara fram með ráðgefandi skoðanakönnun, þetta er ekki bein þjóðaratkvæðagreiðsla eins og við þekkjum þegar verið er að útkljá mál. Það er verið að leita eftir áliti þjóðarinnar og það er sjálfsagt að við reynum að fá svör við sem flestum spurningum. Ef Sjálfstæðisflokkurinn meinar eitthvað með því að hann vilji fá svör við þessum spurningum afgreiðir hann auðvitað þetta mál í þann tíma að hægt sé að fara fram með (Forseti hringir.) þjóðaratkvæðagreiðslu í sumar eins og stefnt er að.