140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:24]
Horfa

Telma Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil gera hér að sérstöku umtalsefni mitt hjartans mál, tillögur að ákvæði stjórnarskrárinnar um náttúru landsins. 33.–36. gr. fjalla um náttúru og hefur stjórnlagaráð sett fram mjög greinargóðar tillögur um umgengni okkar við hana. Ég gleðst yfir því að ráðið leggi þessa miklu áherslu á vernd náttúrunnar því að það er mér mikið kappsmál að náttúran sé virt og vel um hana gengið.

Við lifum í samvist við náttúruna en manninum hættir til að tala um sig sem aðskilinn náttúrunni í stað þess að telja sig hluta hennar. Í samspili manns og náttúru telur maðurinn sig oftast hafa eignarrétt yfir náttúrunni og vita hvernig eigi að nýta hana en ég vil meina að hún eigi sig sjálf. Þá á ég ekki við að við þurfum leyfi náttúrunnar til að umgangast hana heldur er nauðsyn á hugarfarsbreytingu sem felur í sér að náttúran hafi sinn eigin rétt. Ég tel það skyldu okkar að virða rétt hennar til tilvistar og áframhaldandi þróunar á hennar eigin forsendum þótt hún hafi ekki meðvitund til að tala sínu máli. Við getum litið svo á að við virðum hagsmuni hennar rétt eins og við virðum rétt ungbarna sem ekki hafa vitund til að bera fram rétt sinn.

Mig langar að segja ykkur sögu af eikartré í Georgíufylki. Eikartré þetta er talið hafa sprottið til lífs upp úr miðri 16. öld og það var á landareign Williams Jacksons. Honum þótti einstaklega vænt um tréð og vildi tryggja verndun þess til framtíðar. Hann fór til sýslumanns og afsalaði trénu og landinu þar í kring til þess sjálfs. Afsal var því að finna hjá sýslumanni um eignarrétt trésins á sjálfu sér. Þetta tré er fallið í dag en á sama stað stendur nýtt tré sem kallað er sonur trésins sem átti sig sjálft. Mér finnst þetta afar falleg saga og í henni felast skilaboð til okkar allra.

Þetta var bara innlegg mitt í umræðuna. Ég er alls ekki að tala um að við förum út í slíkar aðgerðir en mér þætti virðingarvert, og ég væri stoltari af stjórnarskrá Íslands, ef talað væri um að náttúran hefði sjálfstæðan rétt og að einstök náttúruvætti væru það sérstök að maðurinn hefði engan rétt til að spilla þeim rétt eins og þau ættu sig sjálf.

Ég vil með þessu hvetja til þess að við stöndum vörð um náttúruna og að réttur hennar sé bundinn í stjórnarskrá.