140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:28]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Það mál sem hér liggur undir er á margan hátt mjög merkilegt. Öll umræðan um það ber nokkurn keim af því hvernig okkur hefur gengið á undanförnum árum að vinna að framgangi breytinga á stjórnarskrá Íslands og nú hefur dregið til þeirra tíðinda að sjálfur hæstv. utanríkisráðherra er farinn að óttast. Það þóttu tíðindi í eina tíð og þykja enn þegar sá mæti maður er farinn að skjálfa í hnjáliðunum. Hvað skyldi til ráða og bragðs taka þegar svo háttar til hjá hæstv. ráðherra? Jú, að detta í gamla gírinn, efna til ófriðar og kenna einum um eigið klúður, þ.e. ekki hans persónulega klúður, heldur þess flokks sem hann stendur fyrir og í því samstarfi sem hann er í. Hann reynir að koma sökinni af því hvernig komið er yfir á einhvern tiltekinn andstæðing. Hver skyldi það vera? Jú, af sannri háttsemi hefur hæstv. utanríkisráðherra að sjálfsögðu opinberað íhaldssemi sína, hann kemst ekkert út úr því fari að kenna Sjálfstæðisflokknum eilíflega um ófarir síns eigin flokks. Þetta er gömul klisja en hún hefur gagnast ágætlega fram til þessa og jafnvel gekk þetta svo langt að tiltölulega nýr þingmaður á hinu háa Alþingi, hv. þingflokksformaður Samfylkingarinnar, gekk í framsögu sinni hér í morgun svo langt að segja að nú væri ögurstund í störfum Sjálfstæðisflokksins á þingi. Línan er sem sagt þegar komin þegar þessir háu herrar sjá fram á eigið klúður. Þeir ætla að koma þessu yfir á aðra því að enginn annar en stjórnin sjálf hefur búið til þessa stöðu. Þau eru fullfær um það og hafa sýnt það til muna betur í öðrum málum en þessu hvernig þeim tekst aðdáanlega að klúðra þokkalega góðri stöðu í sjálfsmark.

Umræðan um málþóf er hafin. Við skulum bera þetta saman við fyrri umræðu um málið. Fjöldi þingmanna tók þar til máls, talaði samtals í níu eða tíu klukkustundir. Það eru komnar tæpar sex klukkustundir í þessari umræðu núna og skiptingin liggur þannig að það er einn eða tveir þingmenn frá Vinstri grænum, einn frá Hreyfingunni, tveir frá Samfylkingunni, fimm frá Sjálfstæðisflokknum og fjórir frá Framsóknarflokknum. Ætla stjórnarliðar að tiltaka hvaða þingmenn hafi rétt til að taka til máls í þessari umræðu? Þá væri æskilegt að þeir legðu fram lista sinn um þá sem þeim eru þóknanlegir til að taka hér til máls.

Hér eru menn og konur að tala í fyrsta sinn í þessu máli og þætti engum mikið. Maður hefði frekar búist við því af jafnþingreyndum manni og hæstv. ráðherra að kalla eftir því að fleiri fremur en færri tækju til máls í því máli sem hér heyrir undir.

Við skulum muna eftir því að frumvarpið kom til forseta Alþingis í júlí á síðasta ári. Hvernig í ósköpunum stendur á því að við skulum þá standa hér á þessum drottins degi, komið fram undir kvöld, og þrasa um hvort nægilegur tími sé til að taka það til afgreiðslu þá leið sem ríkisstjórnin hefur valið að fara með þetta mál? Það getur ekki verið stjórnarandstöðunni að kenna. Það er eitthvað þá í verkstjórninni við þetta mál sem veldur því að okkur hefur ekki unnist betur en raun ber vitni.

Þetta vekur mann að sjálfsögðu til umhugsunar um hvernig komið er þegar haft er í huga með hvaða hætti unnið hefur verið að stjórnarskrárbreytingum á síðustu árum. Vissulega hafa nokkrar mismikilvægar breytingar verið gerðar en það nægir í þessu sambandi að nefna störf stjórnarskrárnefndar fyrri ára, þá sérstaklega á árunum 2005–2007. Hér hefur verið nefndur þjóðfundurinn 2010 svo við förum nær okkur í tíma. Stjórnlaganefnd starfaði á árunum 2010–2011 og stjórnlagaráðið á árinu 2011. Það liggja fyrir ótal álitsgerðir, tillögur og gögn. Það er vissulega til nægt efni að moða úr fyrir þingið til að vinna með en af einhverjum ástæðum, og ég kýs að túlka það af þeim sérstaklega sem hafa birst í umræðum um stjórnarliða hér í dag, ná þingmenn ekki saman um að vera ósammála. Það er ekkert óeðlilegt við það að skoðanir séu skiptar um þætti sem verið er að ræða um stjórnarskrármálin. Það er ekkert óeðlilegt við það en í mínum huga er óeðlilegt þegar fyrir liggur hjá öllum flokkum á Alþingi yfirlýstur vilji um að gera breytingar á þeirri stjórnarskrá sem nú er í gildi í landinu. Þá er eitthvað að í því að við náum ekki saman um að koma þeim málum í einhvern þann farveg sem við getum verið sammála um. Þá er ég fyrst og fremst að hugsa um formið, ég er ekki að ræða innihaldið.

Hvers vegna eru þessi skilyrði ekki fyrir hendi? Það er engum öðrum um að kenna en okkur sjálfum og það opinberast ágætlega í þessum átökum sem efnt er til að mínu viti að ófyrirsynju. Við höfum ágætt dæmi frá umræðunni í dag sem var upphlaupið í kringum fundarstjórn forseta þegar stjórnarliðar þustu inn og fóru að tala í löngum bunum.

Ég tel að þetta verklag, þessi samskiptaháttur, þetta samskiptaform, átakahefðin, sé stærsti einstaki orsakaþáttur þess að þingið nýtur ekki trausts nema um það bil 10% þjóðarinnar samkvæmt þeim skoðanakönnunum sem við höfum fyrir okkur á síðustu missirum. Það er afleitt.

Ég hefði álitið að okkur bæri skylda til þess þegar við værum að ræða um og vinna að breytingum á stjórnarskrá landsins að taka tillit til þeirrar stöðu og þess álits sem þjóðin hefur á þeim störfum sem hér eru unnin. Á sama tíma tala menn fjálglega um að það sé einboðið að vísa málum til þjóðarinnar sem allar mælingar sýna að treysta ekki því sem frá okkur kemur.

Það liggur fyrir að á því máli sem hér um ræðir og þeim tillögum stjórnlagaráðsins sem fyrir liggja þarf að gera breytingar. Engu að síður eru settar fram í þeirri þingsályktunartillögu sem hér liggur fyrir ýmsar þær spurningar sem í raun er svarað í þeirri tillögu að stjórnarskrá sem fyrir liggur og ég nefndi áðan að Alþingi hefði fengið í hendur í júlí í fyrra. Í mínum huga bendir það til þess að við séum þar með komin með tillögu í hendur sem ætlað er að aðstoða þingið við að greiða úr einhverjum ágreiningi sem kann að rísa um einstök atriði væntanlegrar stjórnarskrár. Mér finnst skjóta nokkuð skökku við að við höfum þá ekki einu sinni gert neina tilraun til þess í nefndinni að leiða í jörð þann ágreining sem þar kann að vera.

Ég hef sagt í þessari umræðu að við ættum að einbeita okkur að því að taka hana fyrst og fremst um þá leið sem verið er að fara við þessa endurskoðun sem vilji stendur til hjá öllum stjórnmálaöflum hér á þingi að efna í. Ég hef sjálfur tekið þá afstöðu og finnst að við ættum að einbeita okkur að því að ræða þann þátt málsins fremur en innihaldið í því sem við ætluðum okkur að gera. Ég tel að umkomuleysi þingsins í þessu verkefni sé allt of mikið og áberandi og að okkur beri skylda til að greiða úr því fyrst af öllu. Ég tel það forsendu fyrir því að við getum síðan unnið það verk sem bíður þingsins við að vinna þá tillögu sem send verður um síðir í atkvæði þjóðarinnar.

Þarna inni eru vissulega álitaefni. Ég hjó eftir því áðan að það var kallað eftir því hvort sjálfstæðismenn stæðu ekki að baki þeim tillögum sem fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, hv. þingmenn Birgir Ármannsson og Ólöf Nordal, lögðu fram í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Jú, það er svo, en eins og réttilega var undirstrikað áðan leggjast sjálfstæðismenn gegn þessari aðferð, vilja beita sér fyrir því og ná samkomulagi um að þingið einbeiti sér að því að ræða innihaldið og efnisatriði málsins. Ef svo fer að sú tillaga sem hér liggur fyrir fær afgreiðslu og verður afgreidd vilja sjálfstæðismenn flytja þær breytingartillögur, viðbótartillögur á þingskjölum sem hér liggja fyrir. Vissulega er það eðlilegt álitaefni. Ég fagna því að sjálfsögðu að þingmenn hafi tekið undir það úr ræðustóli að það sé eðlilegt að leita eftir því hversu stór hluti þjóðarinnar telur enga ástæðu til að breyta stjórnarskránni. Mér finnst það fyllilega þess virði að það sé rætt. Ég minni einnig á þá hörðu umræðu sem hefur átt sér stað um synjunarvald forseta Íslands. Það er full þörf á að taka djúpa umræðu um það.

Eins og ég segi er ég þeirrar skoðunar að meðan við náum ekki saman og getum ekki jafnað ágreining um vinnuaðferðir mun þingið aldrei ná að vinna heildstæða tillögu sem lögð verður fyrir þjóðina. Það fer ekkert á milli mála og við vitum það öll að forræði þessa máls og vinnsla á að vera á höndum þingsins. Ég hefði álitið eðlilegra að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefði unnið úr þeim tillögum sem henni bárust og skilað frá sér fullbúnu frumvarpi sem við hefðum síðan tekist á um áður en það færi í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Af einhverjum ástæðum sem mér eru ekki kunnar, og hef ég þó hlýtt á alla á umræðu sem hér hefur verið í dag, hófst sú vinna ekki. Ég veit ekki til þess að gerð hafi verið nein tilraun til að ná samstöðu um að byrja að vinna úr þeim tillögum sem þinginu bárust í júlí fyrir hartnær ári. Ef við hefðum borið gæfu til að vinna að málinu með þeim hætti stæðum við ekki í þessum sporum hér og værum að þrasa um hvort og af hverju við hefðum ekki komið málinu áfram. Raunar er ekki útséð um það, ég hef ekki hugmynd um hvernig þessu máli reiðir af hér í kvöld.

Fjöldinn allur af álitamálum er uppi í þessu efni sem væri hægt að hafa langt mál um, t.d. hvort og hvernig á að gera breytingar á stjórnarskránni og bera undir þjóðaratkvæði. Ég hef lýst þeirri skoðun minni afdráttarlaust að áður en til þess kæmi þyrftu menn að ná samstöðu um hvernig verklagið ætti að vera, hvenær ætti að ráðast í þessar breytingar og á hverju ætti að gera breytingar. Þar kemur harðasti ágreiningspunkturinn um skiptar skoðanir á þeim tillögum til breytinga sem gera á. Það kann vel að vera að ég sé upptekinn af þessari samstöðu sem kann að stafa af því að ég kom í gærkvöldi úr ferð fjárlaganefndar til Stokkhólms, í sænska þingið til að kynna okkur með hvaða hætti Svíar unnu úr sínu efnahagsáfalli 1990. Við horfðum sérstaklega til þess hvernig fjárlagagerðin var. Svíum, frændum okkar, gekk mjög vel að vinna sig út úr því áfalli, fyrst og fremst á þeim grunni að þeir komu sér saman um þær vinnureglur sem fjárlögin áttu að fara í gegnum og hvernig ætti að vinna eftir þeim. Það er algjör samstaða um það á sænska þinginu hvernig fjárlagaferlið er, hverjar vinnureglurnar eru, hver markmiðin eigi að vera o.s.frv. Það skiptir engu máli hvort fulltrúar þingflokka þar eru í stjórn eða stjórnarandstöðu, þeir fylgja þessu alveg í þaula. Þeir komu sér saman um vinnureglurnar til þess að menn lentu ekki á þeim uppboðsmarkaði sem oft og tíðum spinnst og verður til í kringum einstök mál.

Álitaefni um einstakar breytingar verða alltaf til. Við losnum aldrei undan því. Við losnum heldur aldrei undan er það að forræði málsins verður alltaf í þessum sal. Ég tel að það sé hámark vanmáttar þingsins í þessum efnum að ná ekki samkomulagi um það hvað við eigum að gera, hvort við eigum að gera þetta og hvenær. Það færi betur á því að það bryti á því í þingsal þar sem þyrftu að vera meirihlutaákvarðanir með hvaða hætti einstakar breytingar ættu að vera úr garði gerðar.

Þetta vildi ég, forseti, láta duga að þessu sinni um það mál sem hér er til umræðu. Ég vona svo sannarlega að hv. þingmenn og hæstv. ráðherra hafi ekki skilið það sem svo að ég hafi verið hér að þvæla í þeim eina tilgangi að tefja fyrir framgangi máls. Ég tel þetta mjög mikilvæg sjónarmið og í virðingarskyni við þingið ætla ég að gefa eftir þrjár mínútur af ræðutíma mínum.