140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:45]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann vill ræða það ferli sem við erum í og við höfum ítrekað reynt að ná díalóg um það. Það hefur hins vegar verið farið út og suður í þeim efnum og nú á síðasta degi, þegar við höfum kannski tvo tíma til að ljúka málinu svo að einhver myndarbragur sé á, hafa hellst hér inn tillögur, einar 11 eða 12 eftir því hvernig maður telur, og sér ekki fyrir endann á umræðu um þær og annað.

Spurt var að því hér fyrr hvort sjálfstæðismenn meintu eitthvað með þessum tillögum eða hvort þær væru settar fram í því skyni að drepa málinu á dreif. Hv. þingmaður orðaði það einhvern veginn svo að sjálfstæðismenn stæðu jú á bak við þessar tillögur og væru á þeirri skoðun að ef svo færi að þingið ákveddi að láta efna til þjóðaratkvæðagreiðslu, um það sem meiri hluti nefndarinnar hefur lagt fram, þá flyttu þingmenn Sjálfstæðisflokksins tillögur sem hér er að finna á sérstökum þingskjölum til viðbótar.

Ég spyr hv. þingmann: Eru þetta skilyrtar tillögur?

Í áliti fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í nefndinni segir að afstaðan sé klár, að þingsályktunartillagan eigi ekki að ná fram að ganga að mati Sjálfstæðisflokksins — hann segir, með leyfi forseta:

„Standi vilji meiri hlutans á Alþingi hins vegar til þess að efna til þessarar atkvæðagreiðslu telja þingmenn flokksins mikilvægt að leita eftir afstöðu kjósenda til fleiri álitaefna.“

Er það svo, hv. þingmaður, að með þessu móti sé meint að fyrst eigi að greiða atkvæði um tillögur meiri hlutans um það hvort efna eigi til þessarar þjóðaratkvæðagreiðslu og ef (Forseti hringir.) það verður samþykkt þá eigi að bera upp tillögur fulltrúa Sjálfstæðisflokksins.