140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[19:41]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Eins og ég sagði í ræðu minni áðan þá studdi ég ekki þá vegferð sem lagt var upp í og benti á þá veikleika sem komu fram í skipan ráðsins í kosningum þar sem meginhluti hópsins var héðan af höfuðborgarsvæðinu — án þess að ég vilji kasta rýrð á þá einstaklinga — og örfáir af landsbyggðinni.

Varðandi vinnuna þá tel ég, eins og ég sagði áðan, að Alþingi hefði átt að fara efnislega ofan í þetta mál áður en það var lagt fram en menn hafa lagt til að fara í þessa könnunaratkvæðagreiðslu fyrst. Þegar málið kemur til raunverulegra kasta Alþingis mun það að sjálfsögðu, að minnsta kosti að mínu mati, horfa út frá þeirri stjórnarskrá sem er nú í gildi því að hún hlýtur náttúrlega að vera sá grundvöllur sem unnið er út frá. Mér kemur ekki til hugar annað. Alþingi sjálft hlýtur því, þegar það tekur í raun vinnuna að fullu til sín, að vinna út frá henni en hefur væntanlega hliðsjón af einhverjum skoðunum sem hafa komið fram.