140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[19:43]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Jóni Bjarnasyni fyrir ágæta yfirferð og alveg sérstaklega þau sjónarmið sem hann kemur með inn í umræðuna, sem eru sjónarmið landsbyggðarinnar.

Mig langar til að spyrja hann: Telur hann að jafn atkvæðisréttur allra sé skaðlegur fyrir landsbyggðina í óbreyttri stöðu? Samsinnir hann því sem ég hef haldið fram að vöxtur ríkisvaldsins sem hefur verið gífurlegur á undanförnum áratugum á kostnað almenna atvinnulífsins valdi í rauninni vanda fyrir landsbyggðina því vöxturinn er allur hérna í Reykjavík?

Þá vil ég spyrja hvort hann sé sáttur við það sem segir í drögum stjórnlagaráðs um framsal ríkisvalds. Nú hef ég grun um að hv. þingmaður sé ekki hrifinn af því að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu eða gangi þar inn. Hefur hv. þingmaður efasemdir um og óttist jafnvel þær lipru heimildir til framsals ríkisvalds sem finna má í hugmyndum stjórnlagaráðs?

Að síðustu langar mig í þessari atrennu að spyrja hann um ferlið. Nú ræðum við þetta mál með afbrigðum og á næturfundum og ég veit ekki hvað og hvað, það liggur ógurlega mikið á og jafnvel svo að menn mega helst ekki tala mínútu lengur. Er hann ánægður með þetta ferli? Finnst honum verkstjórnin vera í lagi hjá núverandi hæstv. ríkisstjórn sem hefur haft mikinn áhuga á þessu máli en hefur af einhverjum ástæðum dregið lappirnar í því alveg ótrúlega? Nú eru komnir fimm mánuðir og 17–18 dagar frá því að málið var lagt fram í byrjun október og það hefur ekki enn þá verið rætt efnislega, við erum til dæmis núna að ræða um stöðu landsbyggðarinnar í ljósi þessara hugmynda og hvernig þetta hefur til dæmis áhrif í þá átt að Ísland geti gengið í Evrópusambandið viðstöðulaust.