140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[19:45]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi Evrópusambandið þá tel ég náttúrlega að við eigum að hætta þessum viðræðum, það er löngu orðið ljóst að þær eru ekkert á okkar forsendum heldur á forsendum Evrópusambandsins og þar eru sett óaðgengileg skilyrði sem liggja nú þegar fyrir. Það er því alveg ljóst að mínu viti að þar er komið á endastöð.

Ég tek undir varnaðarsjónarmið hv. þingmanns og ég geld mjög varhuga við því að menn framselji vald og ákvarðanatöku sem á að vera á höndum Alþingis. Ég legg líka áherslu á að þjóðin hafi rétt til að greiða atkvæði um þjóðréttarlegar skuldbindingar, það er kannski eitt það mikilvægasta sem þjóðin á að eiga rétt á. Flestar ákvarðanir sem teknar eru hafa jú einar og aðrar fjárskuldbindingar í för með sér, beinar og óbeinar, það er alveg sama hver ákvörðunin er. Það er því mjög mikilvægt að menn afmarki ekki um of þá þjóðaratkvæðagreiðslu sem ég styð afdráttarlaust að séu sem víðtækastar heimildir fyrir.

Varðandi þingmenn og jafnt vægi atkvæða þá spyr ég: Hvenær er vægi atkvæða jafnt og hvert er markmiðið með vægi atkvæða í sjálfu sér? Vægi atkvæða til að hafa áhrif á stjórnsýsluna og þær ákvarðanir sem teknar eru, erum við ekki að tala um það? Jú, að minnsta kosti að mínu mati og það ætti þá að fara yfir. Er það þannig núna samkvæmt núgildandi stjórnarskrá? Hvernig gengur það? Markmiðið í núgildandi stjórnarskrá er hvarvetna að allir séu jafnir þannig að það er ekkert nýtt í sjálfu sér. Ég veit ekki hvort það er svo enn í Bandaríkjunum að höfuðborgin Washington sé ekki með neinn þingmann (Forseti hringir.) en hún hefur samt gríðarleg áhrif. Þetta eru því hugarfarsleg (Forseti hringir.) áhrif sem við erum að tala um og kannski líka forgangsröðun, frú forseti.