140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[19:47]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að koma auga á Washington í þessu samhengi, en telur hann eðlilegt að skerða lýðræðið til að laga mismunandi stöðu fólks í landsbyggð og höfuðborg?

Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Segjum að þetta ferli gangi eftir, þessi þingsályktunartillaga verði samþykkt og við göngum til atkvæðagreiðslu í lok júní, mun hv. þingmaður leggja til og ráðleggja sínu fólki að greiða atkvæði með þessu, þar á meðal að auðvelt sé að ganga í Evrópusambandið, þar á meðal að atkvæðisréttur sé jafn o.s.frv.?

Svo vil ég spyrja hann: Sér hann samhengi á milli hrunsins og þeirrar stjórnarskrár sem er í gildi? Er það stjórnarskránni að kenna að hér varð hrun? Mér fannst mjög athyglisvert sem hv. þingmaður sagði að við færum ekki að núgildandi stjórnarskrá. Er þá nokkur von til þess að ný stjórnarskrá breyti einhverju ef við förum ekkert eftir henni?