140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[19:50]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Frú forseti. Mér tókst ekki í fyrri ræðu minni að fara yfir nefndarálit okkar sjálfstæðismanna nema að mjög takmörkuðu leyti. Þegar við erum að tala um það grundvallarplagg sem stjórnarskráin er langar mann að fjalla um mörg atriði en tíminn er mjög knappur og því þarf svolítið að velja úr.

Ég verð samt aðeins, vegna ræðu hv. þm. Jóns Bjarnasonar og þeirrar breytingartillögu sem hann hefur lagt fram og var reyndar líka efni ræðu hans í fyrri umræðu, að nefna að á vissan hátt er það sem hv. þingmaður fjallar um grundvallaratriði í því hvernig nálgast á stjórnarskrá, hvað það er sem á að vera í stjórnarskrá, hvort hún eigi að innihalda fáar grundvallarreglur, grunnsjónarmið eða hvort hún eigi að vera ítarlegra plagg þar sem tekið er á hlutum sem gætu alveg eins verið í almennum lögum og jafnvel þá í pólitískri stefnumörkun.

Hv. þingmaður er mikill talsmaður landsbyggðarsjónarmiða í málflutningi sínum á Alþingi. Það skiptir auðvitað gríðarlega miklu máli að á Alþingi sé sú breidd að þar sé verið að tala máli dreifðra byggða um leið og við gætum að sjónarmiðum þéttbýlisins. Þá er fyrsta sjónarmiðið kannski — ég vil ekki nýta mikið af tíma mínum í þetta, hann er svo stuttur — þetta: Ef við erum sammála um að vera með byggð í landinu, ef það er almenn stefnumörkun, þá tryggjum við það á vissan hátt með kjördæmaskipaninni. Hún er lykillinn að því að tryggja að sjónarmiðum landsbyggðarinnar eða ólíkum sjónarmiðum á landinu verði mætt.

Ég hef aðeins nefnt í andsvörum í dag að það vekur athygli að í tillögum stjórnlagaráðs er ekki horfið frá kjördæmaskipaninni. Niðurstaða þjóðfundarins var á vissan hátt töluvert önnur, en þegar menn vilja útfæra hlutina þá hefur sú ákvörðun verið tekin, a.m.k. af hálfu stjórnlagaráðs, að breyta kjördæmaskipaninni ekki. Hins vegar kemur fram í þeim spurningum sem hér eru fyrir framan okkur vilji meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, þ.e. að spyrja hvort eigi að jafna atkvæði.

Ég nefni þetta vegna þess að hægt er að nálgast hlutina á svo margan hátt þegar við veltum fyrir okkur efni stjórnarskrár. Mín skoðun er sú að hún eigi að vera knöpp. Mín skoðun er einnig sú að sú tillaga sem er fyrir framan okkur frá stjórnlagaráði sé ruglingsleg, það sé verið að leggja til meginreglur en það sé líka gengið dálítið langt í því á köflum að útfæra hluti. Mér finnst þess vegna að menn hafi farið í báðar áttir þegar ákveðið var hvernig halda skyldi á málum.

Aðeins gagnvart þessum spurningum og niðurstöðu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Í meðförum nefndarinnar voru gerðar nokkrar breytingar á þeim spurningum sem fyrst voru kynntar. Það var ekki síst gert vegna athugasemdar frá landskjörstjórn og reyndar líka vegna athugasemda frá gestum sem fyrir nefndina komu. Mér finnst þessar breytingar vera betri en upprunalega tillagan þótt enn séu hlutir sem ég tel geta valdið nokkrum ruglingi. Það er kannski helst grundvallaratriðið í fyrstu spurningunni sem er að minni hyggju enn dálítið óljóst í sambandi við hvers konar veganesti Alþingi fær verði af þessari þjóðaratkvæðagreiðslu næsta vetur.

Við skulum halda því til haga að efnisleg umræða um stjórnarskrárbreytingar hefur ekki farið fram á Alþingi á öllu þessu kjörtímabili og reyndar ekki heldur í lok síðasta kjörtímabils. Meginþunginn hefur farið í að velta fyrir sér forminu en við erum ekki farin að takast á um efnið og þeir alþingismenn sem ekki hafa setið fundi í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hafa enn takmarkaðri möguleika á að gera sér grein fyrir því hvar þessi vinna er stödd. Þess vegna finnst mér óþarft að hraða svo vinnu með þetta mál í þingsölum að það megi einungis nýta tvo daga til að ræða það. Þetta finnst mér skipta verulegu máli þegar við tökum afstöðu til þess hvernig þessar tillögur eru búnar.

Í nefnd milli umræðna kom landskjörstjórn til fundar og ég held að það sé mikilvægt að það komi fram í umræðunni af því að það hefur ekki enn komið fram að nefndin ræddi töluvert framkvæmd kosningarinnar. Það er auðvitað líka verkefni okkar að velta því fyrir okkur hvernig markmiðunum verður náð í kosningunni. Við skulum ekki gleyma því að það er skammt síðan almennar kosningar voru ógiltar í landinu. Það kann að vera, eins og meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar telur, að með því að blanda saman þessari kosningu og forsetakjöri náist meiri þátttaka. Það verður hins vegar að búa þannig um hnútana að menn geti hvort tveggja greitt atkvæði í forsetakjöri og í þessari atkvæðagreiðslu eða í annarri hvorri atkvæðagreiðslunni. Það kann vel að vera að sumir vilji ekki taka þátt í forsetakjörinu en þeir þurfa engu að síður að hafa möguleika á því að greiða atkvæði í þessari kosningu þannig að fyrst þarf að greiða atkvæði í annarri kosningunni og svo hinni. Þetta kann að skipta máli þegar niðurstöður þessa máls verða skoðaðar. Þetta kann að hafa áhrif á kosningaþátttökuna. Það að ákveða að sjálfkrafa verði meiri þátttaka í kosningum með því að hafa kosninguna samhliða forsetakjöri er ekki augljóst mál. Áhuginn á kosningunni mun auðvitað snúast um það hversu mikill áhugi almennings er á málinu. Það hlýtur að vera grundvallaratriði.

Hversu miklu máli telur almenningur það skipta að greiða atkvæði í þessari kosningu? Er það ekki meginmálið?

Ég held að það ósamkomulag sem hefur verið á þingi um stjórnarskrármálið um mjög langan tíma sé ekki til þess fallið að vekja sérstakan áhuga almennings á að taka þátt í kosningu þar um.

Ég er eindregið þeirrar skoðunar að þeir sem bera þetta mál uppi eigi að líta til þess hversu miklu meira máli það skiptir að ná einhvers konar samkomulagi um breytingar á stjórnarskránni og halda svo áfram frekar en vera stöðugt með þetta mál í ágreiningsfarvegi — stöðugt. (Gripið fram í.) Alveg frá vormánuðum 2009 hefur verið ágreiningur. (Gripið fram í.) Eina skiptið sem samkomulag náðist í allsherjarnefnd var í aðdraganda stjórnlagaþingskosningar — ég var þá einn af fulltrúum í allsherjarnefnd — þegar nefndin sammæltist um að setja á laggirnar stjórnskipunarnefnd og halda síðan þjóðfund. Niðurstaða þeirrar stjórnskipunarnefndar, sem liggur frammi frá þingmönnum í tveimur bindum, er á margan hátt mjög athyglisverð. Þar er ýmis rökstuðningur um breytingar á einstökum ákvæðum stjórnarskrárinnar. Þar er alls ekki verið að breyta allri stjórnarskránni. Þar er ekki verið að hnika til hverri einustu setningu. Þar hafa menn sem í þeirri nefnd sátu velt fyrir sér hverju væri æskilegt að breyta og komið með tillögu að því. Ég sakna þess mjög í þeirri vinnu sem hér var í vetur við formhlið tillagnanna í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að menn hafi ekki rætt tillögur stjórnskipunarnefndar svo neinu nemi. Ég sakna þess mjög. Ég held að sú vinna sé mjög mikilvægt innlegg fyrir framtíðarbreytingar á stjórnarskránni.

Eins vil ég segja, vegna þeirrar óbilandi trúar meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að nú sé tíminn til að spyrja þjóðina áður en nokkur efnisleg umræða hefur farið fram á þingi, að þjóðfundurinn var auðvitað hugsaður þannig að leita átti til og vinna með stórum hópi fólks að álitamálum tengdum stjórnarskrá. Það var tilgangurinn með því að halda þjóðfundinn. Stjórnskipunarnefnd undirbjó hann sérstaklega og afrakstur hans í kjölfarið til að leggja inn í þessa umræðu.

Hvernig stendur á því að meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hefur ekki séð mikilvægi þess að eiga efnislegu umræðu fyrst? Af hverju vilja menn alltaf fara öfugt í hlutina?

Númer eitt, tvö og þrjú: Hvernig stendur á því að menn eru svo fastir í því að halda þessa þjóðaratkvæðagreiðslu að unnið sé að því í fullkomnum ágreiningi á hverju einasta stigi málsins? Halda menn að þetta verði málinu til framdráttar til lengri tíma litið? Það er fráleitt að svo verði. Þetta er því miður ávísun á mjög slæleg vinnubrögð.