140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:00]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel rétt að vekja athygli á því að nú þegar klukkan er liðlega átta að kvöldi í síðari umræðu hafa þingmenn Sjálfstæðisflokksins talað í báðum umræðum í þessu máli í ríflega sjö klukkustundir, þ.e. nánast heilan vinnudag. Hér var að ljúka máli sínu hv. þm. Ólöf Nordal. Á undan henni var þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Pétur H. Blöndal, og næstir á mælendaskrá eru sjö þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Þeir hafa tíma næstu tvær klukkustundir til að tala. Ef það gengur eftir er Sjálfstæðisflokkurinn búinn að tala í þessu máli samtals í níu klukkustundir. (PHB: Hann hefur áhuga á stjórnarskránni.) (Gripið fram í.) Já, það væri áhugavert ef þessar ræður skiluðu einhverju, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) en staðreyndin er sú að hér er farið með sömu ræðuna aftur og aftur. (Gripið fram í.) Ekkert nýtt kemur fram í þessu máli. Hér er haldið uppi málþófi og ég vek athygli á því að ef það væri vilji til að ljúka þessu máli innan þess tímaramma sem liggur fyrir er alveg ljóst að miðað við þann fjölda breytingartillagna sem hefur verið fluttur hér, þar á meðal er stór hluti þeirra frá Sjálfstæðisflokknum sjálfum, mun miðað við eðlilegan gang taka að minnsta kosti þrjár klukkustundir að ljúka atkvæðagreiðslu málsins. Það þýðir að það þarf að ljúka þessari umræðu ekki síðar en kl. 21.

Eins og málin standa nú er Sjálfstæðisflokkurinn búinn að tala samtals í sjö klukkustundir og hann er búinn að boða umræður í að minnsta tvær klukkustundir til viðbótar. Ég tel rétt að upplýsa þingheim og almenning sem er að fylgjast með um þessa stöðu mála.