140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:05]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er greinilegt að þessar upplýsingar mínar til þingheims og þjóðarinnar hafa stungið einhverja í hjartað. Ég gat ekki heyrt betur en að hv. þm. Ólöf Nordal kvartaði og kveinaði illa undan því að þurfa að horfast í augu við það með hvaða hætti Sjálfstæðisflokkurinn fer fram í þessu máli. Þau verða bara að eiga það við sig sjálf, hv. þingmenn, hvernig þau koma í þetta mál. Ef það liggur svona mikið við að fara í þessa efnislegu umræðu um stjórnarskrána bendi ég hv. þingmönnum vinsamlegast á að við erum að afgreiða þingsályktunartillögu um að fara með málið til þjóðarinnar og leita eftir áliti hennar. Alþingi Íslendinga mun hafa allan næsta starfsvetur. Menn geta þá talað langtum meira en átta eða tíu klukkustundir, menn geta talað mánuðum saman um efnisatriði stjórnarskrárinnar sem verða þá til umfjöllunar og umræðu í þingsölum. Við erum bara að afgreiða allt annað mál hér (Gripið fram í: Allt annað mál.) sem snýr að þeim spurningum sem við ætlum að leita samráðs og upplýsinga um hjá þjóðinni.

Ég ítreka og vek athygli á því að Sjálfstæðisflokkurinn er búinn að tala heilan vinnudag um þetta mál. Hann er búinn að flytja sömu ræðuna og vera í andsvörum við sjálfan sig um sömu atriðin í heilan vinnudag. Formaður flokksins gat engu svarað um það þegar ég spurði hann fyrr í dag hvaða meining væri af hálfu flokksins að flytja fjöldann allan af breytingartillögum og lýsa því yfir á sama tíma að hann væri andvígur málinu, vildi ekki samráð við þjóðina og ekki kosningar. Það er nákvæmlega það sem málið snýst um, Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki að þjóðin fái að segja álit sitt á þessu máli. Hann ætlar að tala þetta mál í hel. Það er klukkutími til stefnu. Það er í höndum þingmanna Sjálfstæðisflokksins einna í salnum. Hann er eini flokkurinn sem heldur uppi málþófi. Það er í ykkar höndum, ágætu þingmenn, hvort þjóðin fær að kjósa (Forseti hringir.) eða ekki.