140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:09]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum áfram mjög mikilvægt mál sem er ferli þess hvernig stjórnarskráin á að fara í atkvæðagreiðslu. Menn kvarta undan því að þetta sé komið í öngstræti, vanti tíma o.s.frv. og þá spyr maður sig: Hvernig stendur á því að eftir að hafa haft málið í fimm mánuði í hv. eftirlits- og stjórnskipunarnefnd komi það núna fyrst fram? Hvers lags verkstjórn er þetta? Svo kvarta menn undan því að þurfa að horfast í augu við afleiðingarnar. Halda menn virkilega að það eigi að ræða um stjórnarskrána í einhverjum flýti? Á að fara að múlbinda mig þegar ég ræði um það hvað gerist með stjórnarskrána? Ég neita því.

Það vill svo til að Alþingi er stjórnarskrárgjafinn og enginn annar í þessu landi. Alþingi ber ábyrgð á þessu máli frá A til Ö og þeir þingmenn sem ekki þora að koma í ræðustól og ræða um þetta ferli eru að víkja sér undan ábyrgð sem stjórnarskrárgjafi. Ég er furðu lostinn á að ekki skuli hver einasti þingmaður taka til máls um þetta mál, þetta er það veigamikið.

Í fyrri ræðu minni var ég kominn í að ræða um breytingartillögur, ég var ekki kominn lengra af því að ræðutíminn er mjög stuttur. Ég tek fram að þegar þingsályktunartillagan um stjórnlagafrumvarpið kom fram hafði maður bara hálftíma til að ræða þetta gífurlega stóra mál upp á 380 málsgreinar sem eiga að vera undirstaða undir löggjöf á Íslandi, vonandi um mjög langa framtíð. Það að ætla sér að skauta létt yfir það finnst mér ekki hægt. Ég skora á þá þingmenn sem hér sitja og hafa ekki tekið til máls að gera það og segja kjósendum sínum hvaða skoðun þeir hafa á þessari stjórnarskrá sem kjósendur eiga að fara að greiða atkvæði um þannig að kjósendur hafi eitthvað til að fara eftir.

Í breytingartillögu frá hv. þm. Jóni Bjarnasyni o.fl. segir, með leyfi forseta:

„Vilt þú að tryggt sé í stjórnarskrá jafnræði allra landsmanna þegar kemur opinberri þjónustu, óháð búsetu?“

Þarna er verið að tala um að jafnræði sé á milli borgara jafnt í höfuðborg og á landsbyggð. Hv. þm. Jón Bjarnason sem er 1. flutningsmaður þessarar breytingartillögu hefur haldið því fram að þetta sé ekki framkvæmt í dag samkvæmt núgildandi stjórnarskrá, að menn fari ekki að núgildandi stjórnarskrá. Þá er það spurningin: Batnar eitthvað eða breytist ef tekin verður upp ný stjórnarskrá? Er ekki rétt að fara að þeirri stjórnarskrá sem við höfum í dag? Auk þess er önnur spurning sem á að spyrja þjóðina:

„Vilt þú að tryggt sé í stjórnarskrá jafnræði allra landsmanna þegar kemur að þátttöku í ákvarðanatöku og trúnaðarstörfum vegna hins opinbera, óháð búsetu?“

Þetta er af sama meiði. Hv. þm. Jón Bjarnason vill að aðstaða fólks sem býr á landsbyggðinni sé jöfnuð við aðstöðu þeirra sem búa á höfuðborgarsvæðinu. Ég verð að segja, frú forseti, að við fyrstu sýn virðast mér þetta skynsamlegar leiðbeiningar þjóðarinnar til Alþingis við hönnun nýrrar stjórnarskrár. En þetta er náttúrlega spurningin um að fara að stjórnarskrá því að þar stendur að allir skuli vera jafnir, hvort sem þeir búa á Raufarhöfn eða í Reykjavík.

Þá er það síðasta breytingartillagan sem er frá hv. þingmönnum Lilju Mósesdóttur, Jóni Kr. Arnarsyni og Valgeiri Skagfjörð og þar stendur, með leyfi frú forseta:

„Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að almenningur geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um lög sem varða skattamál?“

Ég hefði viljað bæta við þarna: og fjármál. Icesave var nefnilega eitt slíkt mál og það er mjög mikilvægt að inni í stjórnarskránni sé möguleiki fyrir Íslendinga, íbúa þessa lands, að stöðva gífurlegar skuldbindingar sem einstakir ráðherrar kynnu að hafa skrifað undir. Þeir gerðu það nefnilega og sem betur fer tókst að stöðva það ferli.

Þá er ég búinn að fara í gegnum þær breytingartillögur sem fyrir liggja og við þurfum að taka afstöðu til þegar þessum fundi lýkur og gengið verður til atkvæðagreiðslu. Það er eins gott að menn séu búnir að ræða þessar breytingartillögur og fara í gegnum þær áður en þeir greiða atkvæði um þær — eða er ekki svo, frú forseti? Ég hef þá skoðun. Ég vildi gjarnan heyra skoðanir stjórnarliða á þessum tillögum, t.d. tillögum hv. þm. Jóns Bjarnasonar.

Þá er ég kominn að því að ræða um stjórnarskrána sjálfa. Af hverju skyldi ég gera það, frú forseti? Vegna þess að þjóðin á að fara að greiða atkvæði um hana. Það er ekki alveg sama hvernig hún lítur út. Þjóðin þarf að vita skoðanir þingmanna á þessari stjórnarskrá. Hún á að greiða atkvæði um eitt stykki stjórnarskrá, bæði kosti og galla, og ég vil taka það fram áður en ég segi fleira að ég tel mjög margt gott í þeim hugmyndum sem stjórnlagaráð hafði um nýja stjórnarskrá. Þar er mjög margt gott en það er líka margt slæmt og sumt mjög hættulegt að mínu mati þannig að nú óttast ég, frú forseti, að það ferli sem menn eru að fara í gegnum eyðileggi starf stjórnlagaráðs. Þetta er skemmdarverk á starfi þess. Af hverju? Það kann að vera að þessari hugmynd verði hafnað (VigH: Rétt.) vegna þeirra atriða sem eru hættuleg, eins og valdaframsal, afsal fullveldis og sjálfstæðis. Sú heimild er stórhættuleg.

Það kann að vera að einhver sé á móti því að hafa jafnan atkvæðisrétt vegna þess að það skekki stöðu landsbyggðar gagnvart höfuðborg. Mörg atriði í þessum hugmyndum kunna að vera gölluð og fólk kann að hafa á móti þeim og felli þá alla stjórnarskrána, líka það góða sem er í henni. Svona vinnubrögð, frú forseti, eru ekki sæmandi. Mér finnst mjög margt gott í vinnu stjórnlagaráðs og mér finnst mjög slæmt að Alþingi skuli með þessu vanhugsaða ferli hugsanlega eyðileggja þá vinnu. Það hefur lítið verið rætt um það hér af stjórnarliðum, þeir hafa reyndar ekki talað neitt voðalega mikið. Þeir hafa lítið rætt um hvað gerist ef þetta verður fellt. Einn sagði reyndar í andsvari að þá yrði það samt lagt fram. (VigH: Já?) Já, og hann ætlaði sem sagt ekkert að gefa fyrir álit þjóðarinnar. Þessi kosning skiptir máli ef hún er samþykkt en ekki ef hún verður felld. Það finnst mér ekki hægt. Hins vegar er það margt gott í þessum hugmyndum að ég mundi styðja að menn tíndu það besta úr þeim og breyttu svo núverandi stjórnarskrá í þá veru.

Ég tel að þetta ferli sé gert í miklum flýti og sumir hafa meira að segja hvíslað um að þetta sé eitthvert valdabrölt, að Hreyfingin hafi verið keypt til stuðnings við ríkisstjórnina í allt öðrum málum gegn því að leggja stjórnarskrána fram. Ég trúi því ekki, frú forseti, og mér þætti vænt um að einhver fulltrúi Hreyfingarinnar — reyndar er enginn þeirra við. Varamenn þeirra eru samt hér. (Gripið fram í: Þeir eru þingmenn.) Já, þeir eru vissulega þingmenn og það væri gott að heyra hvort þeir vissu af einhverjum slíkum undirmálum. Það væri verulega slæmt ef svo væri. Auðvitað geta varamenn ekki svarað fyrir það sem fulltrúar Hreyfingarinnar hafa samið um við ríkisstjórnina um, um stuðning við ríkisstjórnina. Við verðum að bíða eftir því að þeir komi hingað og þá getur maður kannski tekið til máls undir liðnum um störf þingsins og spurt hvort það sé rétt að þeir hafi lofað ríkisstjórninni stuðningi í erfiðum málum gegn því að þetta mál (Forseti hringir.) yrði lagt fram.