140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:31]
Horfa

Valgeir Skagfjörð (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er góð og þörf umræða hjá hv. þingmanni. Í öllum góðum handritum í öllum leikhúsum taka handrit breytingum, það er eðlilegt. Upphaflega kemur fram hugmynd og ég veit ekki betur en að þessi kosning snúist um að það plagg sem stjórnlagaráð hefur útbúið og skilað af sér eigi að vera ráðgefandi (Gripið fram í.) um nýja stjórnarskrá. Ég geri því ráð fyrir að þetta handrit eins og öll önnur muni breytast í ferlinu en það er mikilvægt að við kjósum um það, að minnsta kosti erum við þá einu hænufeti nær því markmiði að þjóðin fái að skrifa sína eigin stjórnarskrá.

Ég tók þátt í þessari vinnu á sínum tíma á þúsund manna þjóðfundi í Laugardalshöll, ég stýrði þar umræðum og fékk tækifæri til þess að nema púlsinn sem þá var í þjóðfélaginu. Þar var þverskurður af þjóðinni og það var mjög góð stemning á fundinum. Hægt er að lesa út úr niðurstöðunum hvað fólk var að hugsa í þessu sambandi. Þar eru meginstef sem kristallast í þeim spurningum sem lagðar verða fram í kosningunni, þær eru tiltölulega einfaldar og það er auðvelt að svara þeim. Það ætti ekki nokkur einasti maður að velkjast í vafa um spurningarnar og þar með fær kjósandinn örlitla innsýn í hvert meginstefið er í þessu plaggi þó að hann hafi ekki lesið það staf fyrir staf. Ég held því að það sé mikilvægt að gera sér einhverja grein fyrir því hvaða hugmyndir búa þarna að baki til þess að hjálpa kjósandanum þó að viðkomandi hafi ekki tekið þátt í þjóðfundinum eða sé á kafi í þessu máli. Þjóðin fylgist klárlega með þeirri umræðu sem fram fer hér og ég held að það sé nauðsynlegt fyrir þá sem starfa í þessu húsi að gæta sóma Alþingis út á við, að við getum staðið með reisn í þessu máli.