140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:37]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég fylgdist af athygli með því sem hv. þm. Magnús Orri Schram sagði því að við skulum hafa í huga að allt sem gert er í þessum sal er fordæmisgefandi. Eins og ég skil hv. þm. Magnús Orra Schram og hv. stjórnarliða vilja þeir koma þeirri reglu hér á að þegar þeir vinna ekki mál eins og á að vinna þau, vinna þau ekki eins og gert er vanalega í þinginu heldur koma með þau á elleftu stundu illa undirbúin, þá finnist þeim sjálfsagt að hér fari ekki fram hefðbundin umræða í þingsal. Það er það sem hv. þingmaður var að tala um. Þeir hafa farið, stjórnarliðar, í allrahanda málþóf í dag eins og við vitum og eru að reyna að koma í veg fyrir að hér fari fram eðlileg umræða en eins og komið hefur fram eru margir á mælendaskrá.