140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:40]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (um fundarstjórn):

Forseti. Nú skildi ég orð hv. þingflokksformanns Samfylkingarinnar, Magnúsar Orra Schrams, með þeim hætti að það væri ekki verið að reyna að beita þá sem hér vilja tala í þessu máli einhverjum þvingunum eða fá þá ofan af því að ræða þetta mál. Mér fannst hins vegar spurningin eðlileg í ljósi þess sem hv. þingmaður sagði áðan um mikilvægi atkvæðagreiðslunnar fyrir málið, að hún fari fram fyrir miðnætti þannig að málið fái eðlilegan framgang, (Gripið fram í: Eðlilegan?) og við fáum þá að vita hvað áætlað er að atkvæðagreiðslan muni standa lengi. Ef við erum að tala um tvo, þrjá tíma eins og heyrst hefur fer hver að verða síðastur í því að koma þessu máli í atkvæðagreiðslu fyrir miðnætti sem er mjög mikilvægt að gerist. Þess vegna óska ég eftir að hæstv. forseti upplýsi þingið um hvað áætlað er að atkvæðagreiðsla um málið taki langan tíma.