140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:44]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Áður en ég kem að efnisinnihaldi þessarar ræðu vildi ég geta þess að lengstu atkvæðagreiðslur sem ég hef tekið þátt í í þessu þingi hafa verið um þriggja klukkutíma langar, og það hafa verið atkvæðagreiðslur um fjárlög. Mér þætti með fullkomnum ólíkindum ef sú tímaáætlun sem hæstv. forseti nefnir væri eitthvað nærri veruleikanum í ljósi reynslunnar sem er sú að jafnvel fjárlagaafgreiðsla, þar sem verið er að afgreiða tillögur í heilli bók og breytingartillögur í heilli bók, klára menn á þrem tímum. Það hefur jafnvel gerst þó að þingmenn hafi hvað eftir annað farið í atkvæðaskýringar. Þó að hér liggi fyrir 10 breytingartillögur á stuttu máli þá er þessi þriggja tíma tímaáætlun ansi rífleg. Ég skil ekki að nokkrum manni detti í hug að slík atkvæðagreiðsla geti á nokkurn hátt jafnast á við lengstu atkvæðagreiðslur sem fara fram um fjárlög á Alþingi.

Ég rengi ekki að hæstv. forseti hafi fengið þessar upplýsingar frá þingfundaskrifstofu en ég er að velta fyrir mér hvort notaður hafi verið eitthvað vitlaus margföldunarstuðull þegar menn voru að ná þessari niðurstöðu.

Ég ætla að koma að efnisinnihaldi málsins og hefði nú haldið að fleiri hv. þingmenn ættu að gera það í þessari umræðu. Ég gat þess í fyrri ræðu minni að ég hefði ekki tíma til að rekja þær breytingartillögur sem ég á þátt í að flytja við tillögur meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar en mér finnst nauðsynlegt að geta þeirra í örstuttu máli.

Fyrst vil ég segja, bara þannig að enginn þurfi að velkjast í vafa um það, að það er afstaða mín og okkar sjálfstæðismanna í þessari umræðu að þetta mál sé ekki þess eðlis að það eigi að ná fram að ganga. Við teljum að sú atkvæðagreiðsla sem gert er ráð fyrir að verði í sumar sé ótímabær. Við teljum rétt að áður en tillögur af þessu tagi eru settar í þjóðaratkvæði séu þær kláraðar og það var ætlun stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þessa þings lengi vetrar. Það var ætlunin að láta vinna í þessu plaggi, láta vinna faglega og fræðilega greiningu á tillögum stjórnlagaráðs, átta sig á hvaða breytingar þyrfti að gera og fara síðan í þjóðaratkvæðagreiðslu. Menn gáfust upp á fyrra verkefninu en ætla að halda sig við það síðara. Þannig er ástandið í þessu.

Það er ekki svo að það hafi alltaf staðið til að fara með tillögur stjórnlagaráðs beint í þjóðaratkvæðagreiðslu, það er ekki svo. Ef það hefði verið ætlunin þá hefði það verið gert í október í fyrra þegar málið kom til kasta þingsins. Það hefði verið hægt að gera það í september jafnvel, á þeim stutta þingtíma sem þá var, ef það hefði verið viljinn. Ef það hefði verið mat meiri hlutans hér á þingi að setja ætti tillögur stjórnlagaráðs beint í þjóðaratkvæðagreiðslu óbreyttar þá hefði það verið gert síðasta haust, held ég. En meiri hlutinn ætlaði sér lengst af að vinna tillögurnar betur áður en þetta færi í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það var ekki fyrr en menn gáfust upp á því verkefni að sú leið sem hér liggur fyrir var valin.

Ég skil vel þá sem segja: Tillögur að nýrri stjórnarskrá eiga að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu, ég skil það vel. En ég geri þá lágmarkskröfu að búið sé að vinna þá vinnu sem þetta þing ætlar sér að vinna í sambandi við málið áður en til þjóðaratkvæðagreiðslunnar kemur, að ekki sé farið í þjóðaratkvæðagreiðslu og síðan eigi vinnan að fram, síðan eigi að fara í faglega og fræðilega greiningu, síðan eigi að fara í málsmeðferð á Alþingi. Mér finnst það vera að taka hlutina fullkomlega í öfugri röð. Þess vegna, hæstv. forseti, er það grundvallarútgangspunktur minn að það sé rangt að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta skjal á þessum tímapunkti, fullkomlega rangur tímapunktur bara þannig að sú afstaða liggi fyrir.

Eins og kom fram í nefndaráliti okkar hv. þm. Ólafar Nordal, og eins og kom fram í fyrri ræðu minni, þá teljum við hins vegar að ef meiri hluti þessa þings ætlar að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu af því tagi sem hér er gerð tillaga um, með nokkurs konar spurningavagni eins og hv. þm. Lúðvík Geirsson kallaði það oftar en einu sinni í umræðunni í dag — ef það er ætlunin þá bendum við á nokkra þætti, nokkur atriði, sem við teldum að eðlilegt væri að spyrja um með sama hætti og gert er í spurningum þeim sem koma fram í tillögu meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Við teljum að það sé álitamál sem er ekki síður mikilvægt að fá svör við verði á annað borð farið út í þessa aðferð, verði spurningavagninn keyrður á annað borð. Þessi atriði eru að okkar mati ekki síður mikilvæg, ekki síður áhugaverð, og í sumum tilvikum umdeild, og þau atriði sem spurt er um í tillögum meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.

Ég ætla að rekja þessar tillögur. Þær eru fimm sem við lögðum fram ég og hv. þm. Ólöf Nordal. Bara til að geta þess þá hygg ég að ég hafi sennilega þrívegis ef ekki oftar á vettvangi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á mörgum mismunandi fundum nefnt þessi atriði öll eða að minnsta kosti flest. Það var gert af einlægum áhuga á því sem hér liggur fyrir og fyrst þessar tillögur voru ekki teknar upp í breytingartillögur stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar töldum við hv. þm. Ólöf Nordal nauðsynlegt að koma með þær sem sérstakar tillögur. En öll þau atriði sem vikið er að í þessum breytingartillögum hef ég nefnt og við hv. þm. Ólöf Nordal við flest tækifæri sem gefist hafa á undanförnum vikum í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, eða alveg frá því að sú áætlun var lögð upp í febrúar sem nú er unnið eftir.

Nú er það svo að þessar tillögur eru ekki allar alveg sambærilegar. Þrjár fela í sér nýjar spurningar sem bætt yrði við þann lista sem eiga þá að fara inn í þennan spurningavagn. Ég bið hv. þingmenn að afsaka það að röðin er kannski ekki sú sama og á þingskjölunum en fyrsta tillagan, sú sem er með lægsta númerið á þskj. 1102, er spurning sem við hv. þm. Ólöf Nordal teljum afskaplega mikilvægt að fá fram verði á annað boð farið út í atkvæðagreiðslu af þessu tagi. Það er spurningin: Vilt þú að í stjórnarskrá verði ákvæði þar sem forseta Íslands er falið að stýra myndun ríkisstjórnar?

Af hverju spyrjum við um þetta? Jú, frá því að tillögur stjórnlagaráðs komu fram hafa atriði sem varða stöðu forsetaembættisins verið með þeim umdeildustu. Menn hafa túlkað þau mjög mismunandi. Einstaka fulltrúar úr stjórnlagaráði hafa tjáð sig með tilteknum hætti, fræðimenn með öðrum hætti, forseti Íslands með sínum hætti og þannig hafa margvísleg sjónarmið komið fram um þetta. Þessi spurning, sem gengur út á það að spyrja tiltölulega skýrrar og einfaldrar spurningar, gæti hugsanlega verið til ákveðinnar leiðbeiningar um það hvað fólk vill í þessum efnum, hvaða þátt fólk vill sjá forseta Íslands hafa í sambandi við stjórnarmyndanir.

Önnur tillagan, sem er ný spurning líka, er þessi: Vilt þú að í stjórnarskrá verði ákvæði þar sem heimilað er að framselja ríkisvald til alþjóðlegra stofnana? Ég hefði haldið að það væri bæði eðlilegt og sjálfsagt að hafa þessa spurningu með vegna þess að þarna er á vissan hátt vísað til ákvæðis í tillögu stjórnlagaráðs sem ótvírætt er nýmæli þar. Það er nýmæli í tillögum stjórnlagaráðs og það snertir líka atriði sem er mjög umdeilt á okkar tímum, umdeilt á vettvangi stjórnmálanna og meðal þjóðarinnar. Á að vera heimilt að framselja fullveldi landsins til alþjóðlegra stofnana? Við teljum að verði þessi leið farin, sem við erum ekki hrifin af, sé eðlilegt að spurning af þessu tagi sé með.

Í þriðja lagi, hæstv. forseti, þá leggjum við fram spurningu um málskotsrétt forsetans, það sem nú er í 26. gr. stjórnarskrárinnar sem er og hefur síðustu tíu árin að minnsta kosti verið með umdeildustu ákvæðum stjórnarskrárinnar. Okkur fannst mjög sérkennilegt að ekki skyldi neitt spurt um það í tillögum meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Ég ætla ekki að gagnrýna meiri hlutann fyrir það en við vildum þá alla vega bæta úr því með því að leggja fram þessa breytingartillögu sem hljóðar þá einhvern veginn á þessa leið: Vilt þú að í stjórnarskrá verði ákvæði þar sem forseta Íslands er heimilað að synja lagafrumvörpum staðfestingar og vísa þeim þannig til þjóðaratkvæðagreiðslu?

Þetta teljum við að sé ákveðin grundvallarspurning þannig að ef það á að keyra spurningavagn þá er að okkar mati eðlilegt að þessi spurning sé með.

Fjórða spurningin sem ég nefni, eða fjórða breytingartillagan öllu heldur, snertir fyrstu spurninguna í tillögu meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Fyrsta spurningin þar hljóðar nú svo, miðað við breytingartillögu meiri hlutans: Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá? Og svarmöguleikarnir eru: 1. Já, ég vil að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá. 2. Nei. Ég vil ekki að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá. — Við hv. þm. Ólöf Nordal leggjum til að bætt verði við tveimur valmöguleikum til að gefa kost á að sýna fleiri blæbrigði í afstöðu kjósenda. Valmöguleikarnir sem við bendum á eru annars vegar: Ég vil að unnið verði að breytingum á gildandi stjórnarskrá án þess að tillaga stjórnlagaráðs liggi þar til grundvallar. Við teljum að það séu þó nokkuð margir þeirrar skoðunar að við breytingar á stjórnarskrá beri að ganga út frá þeirri stjórnarskrá sem nú er í gildi. Þar megi ýmsu breyta en ástæðulaust sé að skrifa hana upp á nýtt. Við teljum rétt að þeir sem eru þessarar skoðunar finni svarmöguleika á blaðinu verði á annað borð farið út í könnun af þessu tagi.

Við viljum líka gefa þeim kost á að svara með skýrum hætti sem eru bara býsna ánægðir með núverandi stjórnarskrá og vilja ekki að henni sé breytt. Við viljum bjóða þeim upp á þann valkost. Við leggjum til, hæstv. forseti, að þessir tveir nýju valkostir komi í staðinn fyrir síðari valkostinn sem er á þessari spurningu þar sem bara er sagt nei við tillögum stjórnlagaráðs. Við teljum að með því að fá þarna þessa tvo kosti í stað eins áður fáum við skýrari mynd af vilja kjósenda.

Á bak við tillögu okkar býr líka sú hugsun, bara þannig að ég segi það eins og það er, að okkur finnst tillaga meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar ganga út frá því að eina leiðin til að breyta stjórnarskránni sé að fara eftir tillögu stjórnlagaráðs. Svo er auðvitað ekki og við teljum mikilvægt að leggja fram valkosti sem sýni að svo er ekki. Það er vilji sumra að breyta stjórnarskránni með þeim hætti sem tillaga stjórnlagaráðs gerir ráð fyrir en það er ekki eina leiðin. Það er ekki eins og að ef víki menn frá tillögum stjórnlagaráðs séu menn að segja að ekki eigi að breyta neinu í stjórnarskrá. Við viljum opna möguleika fyrir þá sem eru þessarar skoðunar á þessu spurningablaði.

Af sama toga er síðasta breytingartillagan sem ég ætla að nefna. Hún snýst kannski frekar um blæbrigði en annað, og það er að fella úr tillögu meiri hlutans alls staðar þar sem sagt er „nýrri“ stjórnarskrá. Í hverri einustu spurningu er spurt: Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði o.s.frv.? Við teljum að það sé með vissum hætti leiðandi af því að ekki er óhjákvæmilegt að þessi vinna endi með því að til verði ný stjórnarskrá. (Forseti hringir.) Það getur orðið til úr þessu endurbætt stjórnarskrá. Sú stjórnarskrá sem nú er í gildi með umbótum.