140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:59]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Birgir Ármannsson fór í ræðu sinni yfir þær fjölmörgu breytingartillögur sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa flutt við fyrirliggjandi þingsályktunartillögu. Hann sagði meðal annars að þetta væru tillögur sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins vildu gjarnan ná fram og bætti við, með leyfi forseta, „verði á annað borð farið út í könnun af þessu tagi.“

Ég vil vekja athygli hv. þingmanns og annarra í salnum á því að nú er klukkan níu, 21.00. Ég var hér í ræðustóli fyrir réttum klukkutíma síðan og vakti þá athygli á stöðu mála. Þá voru sjö þingmenn Sjálfstæðisflokksins á mælendaskrá, nú eru sex eftir. Þeir eiga um tvær klukkustundir eftir í tíma til að fjalla um það mál sem er á dagskrá. Þá verður klukkan orðin í það minnsta ellefu, klukkustund til miðnættis og ljóst að það verður enginn tími til að afgreiða allt það sem hér liggur fyrir á þeirri klukkustund, það hljótum við þingmenn allir að vera sammála um en við þekkjum og vitum hvaða tími fer í að afgreiða allt sem liggur fyrir þessum fundi.

Ég vil því benda hv. þm. Birgi Ármannssyni á að ef hugur fylgir máli og hann ásamt félögum sínum í Sjálfstæðisflokknum vill gjarnan ná þessum tillögum fram er það alfarið í hendi hans og félaga hans að sjá til þess að það gangi þannig eftir.