140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:04]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nú fór maður að þekkja svipinn á Sjálfstæðisflokknum hér undir orðum síðasta ræðumanns. Ég ætla samt að reyna að vera málefnalegri en hv. þm. Birgir Ármannsson, og ég vil spyrja hann vegna þess að hann talaði í viðtengingarhætti um tillögur sínar og Ólafar Nordal, hv. þingmanna og fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Ég hefði haldið, sagði hv. þingmaður, að það hefði verið rétt að leggja þessar spurningar fyrir þjóðina ef niðurstaða þingsins verður að fara fram með þessar spurningar o.s.frv.

Þetta er nákvæmlega það sama og margoft hefur komið fram á fundum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og kemur fram í nefndaráliti á þskj. 1100. Þar segir að afstaða Sjálfstæðisflokksins sé sú að þessi tillaga eigi ekki að ná fram að ganga. Síðan segir, með leyfi forseta:

„Standi vilji meiri hlutans á Alþingi hins vegar til þess að efna til þessarar atkvæðagreiðslu telja þingmenn flokksins mikilvægt að leita eftir afstöðu kjósenda til fleiri álitaefna …“

Nú vil ég spyrja hv. þingmann: Ber að skilja orð hans áðan og orðin eins og þau birtast í nefndarálitinu sem svo að hér sé um skilyrtar tillögur að ræða? Sem sagt að við afgreiðslu tillagnanna hér á eftir eigi fyrst að greiða atkvæði um það sem meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar leggur til, að farið verði í þessa þjóðaratkvæðagreiðslu og þær spurningar verði lagðar fyrir sem þar er gerð tillaga um, og ef það verður samþykkt að þá fyrst eigi að bera upp tillögur hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins? Ég hlýt að spyrja þessarar spurningar.

Þá er tími minn er búinn og ég spyr hinnar spurningarinnar á eftir.