140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:12]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Herra forseti. Við ræðum við síðari umræðu þingsályktunartillögu um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga og tiltekin álitamál þeim tengd.

Hér hafa komið þingmenn og talað um að fulltrúar og þingmenn Sjálfstæðisflokksins stæðu í málþófi. Mig langar í upphafi, herra forseti, að fara aðeins yfir það svo að ekki fari á milli mála að það er bundið í þingskapalög hvernig ræða á þingmál hvort heldur eru lagafrumvörp eða þingsályktunartillögur. Það er réttur þingmanna samkvæmt þingsköpum að ræða í síðari umræðu um þingsályktunartillögu af þessu tagi og öllum öðrum toga í 20 mínútur í fyrsta sinn, í tíu mínútur í annað sinn og í fimm mínútur eins oft og þingmaður telur þörf á. Þetta er réttur þingmanna samkvæmt þingsköpum. Samt fer hv. þm. Lúðvík Geirsson í ræðustól og vænir þá þingmenn sem nýta sér rétt sinn til umræðu samkvæmt þingsköpum um málþóf. Af hverju? Jú, vegna þess að þeir eru ekki sammála því sem meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar vill að fari hér í gegn. Þeir vilja fá að ræða þau mál og láta í ljós skoðanir sínar á því og velta upp ýmsum öðrum flötum, en það má ekki vegna þess að það er málþóf.

Virðulegur forseti. Það er réttur þingmanns samkvæmt þingsköpum að ræða með þeim hætti sem ég greindi frá um þingsályktunartillögur og því er dónaskapur að væna þingmenn um málþóf áður en þeir hafa í það minnsta tekið einu sinni til máls — einber dónaskapur. (Gripið fram í.) Ætli þingmenn stjórnarflokkanna að rjúfa þann rétt þingmanna að ræða þingsályktunartillögu sem liggur fyrir með einum eða öðrum hætti þá er eitt orð í mínum huga yfir það og það er valdníðsla. Það er valdníðsla af hálfu hv. þingmanns að kalla það málþóf þegar maður á sínar 20 mínútur lágmark. Mér verður mikið niðri fyrir, herra forseti, þegar þingmenn ráðast með þessum hætti að rétti annarra þingmanna til að taka til hér máls.

Nú ætla ég að snúa mér að þessari þingsályktunartillögu og því sem liggur fyrir í síðari umræðu.

Ég lýsti þeirri skoðun minni í fyrri umræðu að þær spurningar sem meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar lagði fram hefðu eingöngu átt að gefa tvo svarmöguleika, já og nei. Ég fagna því að breytingar hafa orðið á framsetningu spurninganna hvað það varðar. Nú er eingöngu val um já eða nei. Það gefur skýrari mynd af því hver afstaða fólks sem mun kjósa og taka afstöðu til þessara spurninga er þegar þar að kemur. Ég fagna því líka að meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar tók að hluta til tillit til þeirra athugasemda sem komu fram í ræðum æðimargra sem og frá landskjörstjórn um að framsetning spurninganna hefði mátt vera betri. Þær breytingar sem hafa verið gerðar eru vissulega til bóta.

Virðulegur forseti. Ég er engu að síður, og hef lýst því yfir áður, ósátt við það ferli sem verið er að setja hluta þeirra tillagna sem stjórnlagaráð skilaði í. Ég tel að betur hefði farið hefðu þingmenn rætt saman í þingsal þær tillögur sem liggja fyrir vegna þess að þær eru margar hverjar ágætar.

Stjórnlagaráði var falið að endurskoða stjórnarskrána en stjórnlagaráð endurritaði stjórnarskrána. Ekkert í drögum eða tillögum stjórnlagaráðs er eins orðað og í núgildandi stjórnarskrá, ekki ein einasta grein. Stjórnlagaráð hefur því endurritað stjórnarskrána en ekki endurskoðað hana. Mér finnst mikilvægt, virðulegur forseti, að þetta sé sagt margoft vegna þess að ég held að flestir telji að stjórnarskráin hafi verið endurskoðuð og þær tillögur sem liggja fyrir séu endurskoðun á núgildandi stjórnarskrá en ekki endurritun.

Ég hefði kosið að þingmenn skiptust á skoðunum um málið og þær spurningar sem liggja fyrir og áætlað er að leggja fyrir þjóðina í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Hvaða skoðun hefur þingheimur á þessum spurningum? Hver er skoðun þingmanna sem ætla síðan að velta fyrir sér hvort þeir taki tillit til ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu eður ei í þeim álitaefnum sem hér eru lögð fram? Hver er skoðun meiri hlutans í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd á þessum spurningum? Það hefur aldrei komið fram, virðulegur forseti.

Það eina sem er nokkuð ljóst í þessum sal varðandi tillögur stjórnlagaráðs og ég held að allir þingmenn hafi á einn eða annan hátt lýst yfir að þeir séu sammála um er að auðlindir eigi að vera í þjóðareigu. Menn geta svo togast á um hvað séu auðlindir. Sumir segja að auðlindir séu orkan í iðrum jarðar, fallvötnin sem og fiskurinn eða fiskifangið í sjónum í kringum landið okkar. Í mínum huga eru það auðlindir þjóðarinnar. Ég er þeirrar skoðunar að þær eigi að vera í eigu þjóðarinnar, þær eigi ekki að vera í ríkiseigu. Þá getum við tekið undir það, eins og hæstv. starfandi sjávarútvegsráðherra sagði í gær, að ráðsmenn fari með eigur þjóðarinnar því að þær séu ekki ríkiseign. Um leið og þær eru ríkiseign eru þær orðnar andlag við skuldir ríkisins og hugsanlega hægt að taka þær upp í skuld ef til þess kæmi.

Virðulegur forseti. Fyrstu spurningunni hefur verið breytt. Nú er spurt: Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá — það er eins og menn gefi sér að það verði ný stjórnarskrá, ekki endurskoðuð stjórnarskrá að viðbættu því sem menn telja verulega skipta máli að lagfæra heldur komi algerlega ný stjórnarskrá, en ég ætla ekki að gera athugasemd við það — verði náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeign lýstar þjóðareign? Nú ætla ég að vera svolítið leiðinleg (Gripið fram í.) vegna þess að þjóðareign er eitthvað sem er í eigu þjóðarinnar í heild sinni. Við getum tekið vatnsauðlindina. Hún er að hluta til í eigu þjóðarinnar eða réttara sagt er hún að hluta til undir verndarvæng ríkisins en hún er líka að hluta til í eigu sveitarfélaganna og síðan eru vatnsréttindi í einkaeigu. Lítum við eign sveitarfélaganna þeim augum að um sé að ræða þjóðareign? Eða þurfum við líka að fara í endurskoðun á þeim þætti? Það eru allir meðvitaðir um hvað einkaeign er en eign sveitarfélaganna á auðlind og auðlindum, er það þjóðareign? Menn geta hártogað eins lengi og þá lystir þær spurningar sem hér liggja fyrir. Þess vegna skiptir máli þegar menn setja fram spurningar af þessu tagi að það sé klárt og kvitt og skýrt að hverju við erum að spyrja og hvort við viljum svarið já eða nei.

Virðulegur forseti. Álitamál í tillögum stjórnlagaráðs snúa að fleiri atriðum en hér eru. Hér er verið að ræða náttúruauðlindir eða að auðlindir verði lýstar í eigu þjóðar og við erum að ræða um hvort í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkjuna. Mig langar aðeins að skoða þá spurningu og fá að tjá mig um það mál. Á Íslandi var kristni lögtekin árið 1000. Við höfum síðan byggt á ákveðnum gildum og dyggðum tengdum kristinni trú. Landið okkar er byggt fjölbreyttari þjóðum en áður, fleiri setjast hér að en áður hafa gert. Við eigum hér margt gott fólk sem hefur komið frá framandi löndum, sumir hverjir með aðra trú en kristna trú. Íslendingar eru að sjálfsögðu ekki allir kristnir og velja sumir að standa utan trúfélaga almennt og eru ekki skráðir í þjóðkirkjuna. Af hverju, þrátt fyrir þetta, á þjóðkirkjan ekki að hafa sess í stjórnarskrá? Af hverju vörpum við hugsanlega fyrir róða hluta af þúsund ára sögu þjóðarinnar? Fyrir hvern, fyrir hverja?

Mín skoðun er algerlega sú að ákvæði um þjóðkirkjuna eigi að vera í stjórnarskrá. (Gripið fram í.) Ég mun svara því áliti, hv. þm. Helgi Hjörvar. Komi til þessarar þjóðaratkvæðagreiðslu mun ég að sjálfsögðu taka þátt í henni vegna þess að ég virði kosningarrétt minn mikils og nýti hann alltaf.

Við spyrjum líka — og það er rétt að það er þarft — hvort tiltekið hlutfall kosningarbærra manna eigi að hafa rétt til að senda mál í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég get fallist á það. En ef þjóðin á sjálf eða réttara sagt kosningarbærir íbúar, kosningarbærir þegnar, hluti þjóðarinnar, að geta kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu þá finnst mér að við hefðum þurft að spyrja samhliða hvort forsetinn ætti jafnframt að hafa slíkt vald. Ef við færum þetta vald til þjóðarinnar vil ég að það verði tekið af forsetanum. Svo einfalt er það. Annað tveggja verður þetta vald í höndum kosningarbærra þegna íslensku þjóðarinnar eða það verður eins og það er í valdi forseta Íslands. Í mínum huga geta ekki tveir haft það, ef hægt er að tala um hluta þjóðarinnar eða þjóðina sem einn og forsetann sem annan þótt hann sé hluti af þjóðinni. Þetta vald verður að vera skilgreint á öðrum hvorum staðnum. Fyrir mitt leyti, virðulegur forseti, vil ég frekar fela það þjóðinni en forseta Íslands.

Þetta er álitamál í drögum eða tillögum stjórnlagaráðs. Núverandi forseti Íslands stóð í ræðustól og túlkaði þetta ákvæði í tillögum stjórnlagaráðs á mjög afgerandi hátt. Fulltrúar stjórnlagaráðs hafa sagt að hann túlki það ekki eins og þeir hafi ætlast til að það væri túlkað. Þess þá heldur er mikilvægt, ef verið er að fara í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um hvernig við ætlum að skipa þjóðaratkvæðagreiðslur, að þessi þáttur sé inni hvað varðar forsetann. Mér þykir miður, virðulegur forseti, að svo sé ekki.

Við göngum væntanlega til atkvæðagreiðslu um þær tillögur sem hér liggja fyrir, þ.e. tillögur minni hluta stjórnlaganefndar, þær eru tvær, ein tillaga frá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur og síðan breytingartillögur frá hv. þingmönnum Birgi Ármannssyni og Ólöfu Nordal fyrir utan þær breytingar sem ég var að rekja og tek undir og fagna frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.

Ég ítreka, virðulegur forseti, að mér finnst það ferli sem nú er verið að setja hluta þessara tillagna í sérkennilegt. Ég hef aldrei farið í grafgötur með að ég á erfitt með að sætta mig við það. En ég hef aldrei óttast samtal við þjóðina eins og það er kallað. Ég hef alltaf getað talað við fólk og óttast ekki samtal við kjósendur mína eða kjósendur annarra flokka. En mér finnst frekar lágkúrulegur málflutningur ef maður er ekki sammála í einu og öllu því sem liggur fyrir að þá sé maður hræddur, hafi ekki kjark, vilji ekki. Ég frábið mér slíkan málflutning þegar jafnmikilvægt mál og stjórnarskráin er annars vegar, sem og flestöll önnur mál sem við á Alþingi þurfum að ræða — að maður hafi ekki kjark til að tala við kjósendur. Það er lágkúrulegur málflutningur að tala með þeim hætti vegna þess eins að fólk er ekki sammála um leiðir og greinir á um leiðir þó að það geti verið sammála um markmið. Þess vegna erum við í pólitík. Við viljum öll landi og þjóð allt hið besta en við erum í pólitík og þar greinir okkur á um leiðir að markmiðinu. Það er ekki kjarkleysi. Ég ítreka enn, virðulegi forseti, það er lágkúrulegt að tala (Forseti hringir.) til annarra þingmanna með þeim hætti.