140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:40]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum mál sem er afskaplega stórt. Ég verð að viðurkenna að mér þykir léttúð sumra hv. þingmanna í tengslum við það ekki vera við hæfi og því síður ýmis ummæli sem fallið hafa. Ég skil vel að þeim vandaða þingmanni hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur hafi verið ofboðið eftir andsvarið hér áðan.

Við erum að ræða sjálfa stjórnarskrána og ég held að það sé rétt að menn muni að hún er grundvöllur stjórnskipunar landsins, hvorki meira né minna. Allar lýðræðisþjóðir vanda mjög til verka þegar breyta skal stjórnarskrá. En orðræðan hér er á þann veg að það er eins og sumir hv. stjórnarþingmenn hafi gleymt því. Við getum verið ósammála um ýmislegt en ég hélt að við værum sammála um að mikilvægt væri að vanda til verka þegar stjórnarskráin á í hlut og þannig hefur það jafnan verið þegar stjórnarskránni hefur verið breytt.

Þegar menn hafa verið að breyta stjórnarskrá þjóðarinnar, sem hefur nú verið gert nokkuð oft, hafa verið settar á stofn nefndir sem kallað hafa til fræðimenn og þá aðila sem best þekkja til og reynt hefur verið að ná fram sem breiðastri samstöðu. Það hefur komið fram að þegar hæstv. fyrrverandi ráðherra Jón Kristjánsson stýrði þeirri vinnu var farið að ósk Vinstri grænna og Samfylkingarinnar, sem voru þá í minni hluta, um neitunarvald í nefndinni.

Af hverju gerði formaður stjórnarskrárnefndar það? Ég býst fastlega við því að það hafi verið til að ná sem breiðastri samstöðu vegna þess hversu mikilvæg stjórnarskráin er. Ég met það svo, virðulegi forseti, að hann hafi gert það vegna þess að hann hafi borið afskaplega mikla virðingu fyrir starfi sínu, að hann hafi vitað hversu mikilvægt það var. Þrátt fyrir að hann hafi örugglega ekki verið sammála, býst ég við, öllu því sem kom fram frá VG og Samfylkingunni vildi hann samt sem áður leita allra leiða til að ná góðri samstöðu við þá flokka. Væntanlega hefði þáverandi formanni stjórnarskrárnefndar verið í lófa lagið að keyra í gegn ýmsa hluti með meiri hluta en ég tel að hann hafi metið það svo að það væri best fyrir íslenska þjóð að grundvöllur stjórnskipunar, stjórnarskráin, breytingar á henni, yrði unninn þannig að góð og breið sátt væri milli aðila, að það væri langbest fyrir þjóðina.

Menn koma hingað upp og segja að huga þurfi að framtíðinni, að menn séu ekki alltaf í þeirri stöðu að vera í minni hluta, og það er kjarni málsins. Ég vona það og treysti því að þeir aðilar sem hér hafa talað um að það skipti máli að ná sátt um stjórnarskrá — að það séu ekki orðin tóm heldur verði það þannig meðan þeir komi að málum. Það skiptir máli að vanda til verka þegar við erum að breyta stjórnarskránni og það skiptir máli að hafa sátt um málið.

Við vitum, virðulegi forseti, að þetta hefur verið nokkur þrautaganga hjá hæstv. ríkisstjórn. Við skulum bara horfa á það eins og það er. Hér var kosið stjórnlagaþing en því miður tókst ekki betur til en svo að sú kosning var dæmd ógild. Voru það án nokkurs vafa miklir álitshnekkir fyrir íslenska þjóð sem með réttu, að því er ég vil trúa, telur sig vera lýðræðisþjóð til margra alda og með lengri hefð fyrir lýðræði en flestar þjóðir sem við berum okkur saman við. Meiri hluti á Alþingi kaus þá að kjósa stjórnlagaráð sem skilaði nýrri tillögu að stjórnarskrá og þá var málið sent inn í þingið. Sex mánuðum síðar er ekki búið að ná neinni niðurstöðu í þeirri hv. nefnd sem á að fjalla um það mál. Það er engin efnisleg niðurstaða komin hvað þá tillögu varðar eftir sex mánuði. Samt sem áður hefur sú hv. þingnefnd ekki gert mikið annað á meðan, virðulegi forseti, og ég vek athygli á því að sú nefnd á að vera með eftirlit með framkvæmdarvaldinu og er með þó nokkuð af erindum þar sem hún hefur ekki klárað.

Þá kemur tillaga um að setja ákveðnar spurningar í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Og ég vil vekja athygli á því að þjóðaratkvæðagreiðsla er ekki bara eitthvað sem gert er út í loftið. Það þarf að uppfylla ákveðnar forsendur ef þjóðaratkvæðagreiðsla á að takast vel. Þær þjóðir sem nýta þjóðaratkvæðagreiðslu hvað best og beinar kosningar gera það þannig að hugsun er á bak við þær atkvæðagreiðslur og þær tillögur, tillögur sem lagðar eru fyrir þjóð eða stóra hópa.

Við Íslendingar, og það hefur nú ekki verið mikið í umræðunni, vorum með þrjár þjóðaratkvæðagreiðslur á árunum frá 1905–1944. Var það tillaga um að koma hér á skylduvinnu, ein sneri að áfengismálum og síðan fullveldi. Þátttakan í þeim atkvæðagreiðslum var frá 43% upp í 98,4%. Við höfum síðan haldið þjóðaratkvæðagreiðslur um Icesave og atkvæðagreiðslur í sveitarfélögum um það hvort áfengisútibú ættu að vera í viðkomandi sveitarfélagi. Einnig var hér atkvæðagreiðsla, sem lítið hefur verið gert með vegna þess að hún var ekki nógu vel hugsuð, sem var atkvæðagreiðslan um flugvöllinn í Vatnsmýrinni. Þar var lítil þátttaka og má færa full rök fyrir því að þar hafi ekki verið mjög skýrir valkostir sem meðal annars geta skýrt þátttökuna eða þátttökuleysið. Ég veit ekki betur en menn hafi, hin ýmsu stjórnmálaöfl, síðan haft allra handa skoðanir og stefnur í málefnum flugvallarins. Umrædd atkvæðagreiðsla er flestum gleymd.

Ef vel á að ganga með þjóðaratkvæðagreiðslur þá þarf að uppfylla ákveðin skilyrði að mínu áliti og ég held flestra þeirra sem þær skoða. Í fyrsta lagi þurfa spurningarnar að vera skýrar. Ég spyr, virðulegi forseti: Uppfyllum við það skilyrði með þeirri tillögu sem hér liggur fyrir?

Fyrsta spurningin er, með leyfi forseta: Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá? Fyrri valkosturinn: Já, ég vil að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá. Hinn valkosturinn: Nei, ég vil ekki að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá.

Virðulegi forseti. Hvað þýðir þetta? Það var skrifuð ný stjórnarskrá. Hvað þýðir það að tillögurnar eigi að liggja til grundvallar nýrri stjórnarskrá? Er verið að tala um það allt saman? Ef það er allt saman hvers vegna stendur það þá ekki þarna? Það getur ekki verið allt saman. Hvað á það þá að vera? Hvaða einstöku þættir eiga þá að liggja til grundvallar? Ekki er það allt, það er alveg ljóst, annars mundi það standa. Og hver á að taka ákvörðun um hvaða þættir í tillögum stjórnlagaráðs eiga að liggja til grundvallar? Ef meiri hlutinn segir nei, hvað þýðir það þá? Má þá ekkert af því sem er í tillögum stjórnlagaráðs vera þarna inni, ekki neitt? Ég veit það ekki. Veit það einhver? Munum við halda næturfundi, kvöldfundi og allra handa fundi til að ræða það þegar niðurstaðan kemur?

Spurning nr. 2: Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu lýstar þjóðareign? Svarmöguleikarnir eru já og nei. Hvaða náttúruauðlind og hvað eru náttúruauðlindir? Hvað er þjóðareign? Veit það einhver? Ég er með grein eftir Skúla Magnússon sem er dósent við lagadeild HÍ. Hann er með ákveðnar skoðanir á því og ég ætla að lesa aðeins úr því það sem ég held að sé kjarni málsins. Hann segir, með leyfi forseta:

„Í ákvæði stjórnlaganefndar felst að þjóðareign vísar ekki til einkaréttar í lagalegum skilningi, hvorki ríkiseignar né sérstaks nýs eignarforms. Þvert á móti vísar hugtakið til þeirrar hugmyndar að náttúruauðlindir Íslands séu gæði sem þjóðin öll hefur ríka hagsmuni af, ekki ósvipað því að við, þjóðin, „eigum“ tungu, bókmenntir, landslið í handbolta o.s.frv. Af þessu leiðir að auðlindir í þjóðareign geta lagalega verið háðir eignarrétti einkaaðila, eign ríkisins eða verið eigendalausar.“ — Ég spyr, í ljósi síðustu setningarinnar: Hvað er þá þjóðareign? Ég held við getum alla vega verið sammála um að þetta er ekki mjög skýrt.

Spurning nr. 3: Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi? Og svarmöguleikarnir eru já eða nei. Ef svarið verður já, hvernig á ákvæðið að vera í stjórnarskránni? Þú getur væntanlega verið með allra handa ákvæði um þjóðkirkjuna, það er ekkert skýrt. Hefði ekki verið eðlilegra að þarna væri þá ákvæði sem menn vildu hafa um þjóðkirkjuna, að fólk mundi kjósa um það?

Spurning nr. 4: Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði persónukjör í kosningum til Alþingis heimilað í meira mæli en nú er? Valmöguleikarnir eru já eða nei. Hvað þýðir þetta? Þetta segir nákvæmlega ekki neitt. Að vísu er það nokkuð skýrt að ef menn segja nei, þá á væntanlega ekki að gera neitt meira með persónukjör í kosningum til Alþingis. Ég veit ekki hvernig það mundi koma út ef síðan yrði sagt já við því að tillögur stjórnlagaráðs yrðu látnar liggja til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá, en það er kannski aukaatriði.

Spurning nr. 5: Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um atkvæði kjósenda alls staðar af landinu vegi jafnt? Já eða nei er valkosturinn. Ég mundi segja að þetta væri kannski það skýrasta í þessum tillögum, mér sýnist það.

Spurning nr. 6: Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningabærra manna geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu? Já eða nei. Hvað þýðir þetta? 5%, 1%, 15%, 20%, 30%, 40%, 50%? Þar sem þjóðaratkvæðagreiðslur eru praktíseraðar þá væri þetta bara mjög skýrt, þarna væri bara ákveðin tillaga.

Við erum hér að tala um sex spurningar og í besta falli er ein nokkuð skýr. Aðrar eru þannig að það getur tekið langan tíma, þá væntanlega hjá þinginu sem fær þetta til baka, hvort sem það er í þessum sal eða í viðkomandi nefnd, að reyna að finna út úr því hver vilji fólksins er eftir að það er búið að kjósa í þessari ráðgefandi atkvæðagreiðslu.

Það er fleira sem skiptir máli þegar við erum að tala um þjóðaratkvæðagreiðslur. Hversu margir taka þátt í atkvæðagreiðslunni, hvaða áhrif hefur það? Gefum okkur að þetta væru skýrar spurningar, sem þær eru ekki. Ef 10% þjóðarinnar taka þátt í atkvæðagreiðslunni, er það þá bindandi niðurstaða fyrir þingið? 20%? 30%? Segjum að kosningaþátttaka yrði lítil en eitthvað af þessu yrði samþykkt með naumum meiri hluta, síðan kæmi skoðanakönnun eftir hefðbundnum leiðum sem yrði á hinn veginn, hvað þýddi það? Þetta er bara ráðgefandi skoðanakönnun. Gefum okkur að um 30% tækju þátt og að 1. spurningin væri skýr og yrði samþykkt með 51%. Síðan kæmi skoðanakönnun sem sýndi að þjóðin væri í yfirgnæfandi meiri hluta á móti því, hvaða áhrif hefði það?

Kynningarmál — nú er það þannig, virðulegi forseti, að ef kosningar eiga að ganga vel þá skiptir afskaplega miklu máli að fólk sé upplýst um það hvað kosið er um. Er það ekki eitthvað sem allir eru sammála um? Viljum við ekki öll að kynning á því sem þarna fer fram sé eins góð og hlutlæg og mögulegt er? Gefum okkur það, sem er ekki, að þetta væru skýrar spurningar. Gefum okkur að það væru tvær andstæðar fylkingar, svipað eins og er bara í Evrópusambandsmálinu — erum við ekki sammála um það í ríkisfjölmiðlum að það sé mikilvægt að sjónarmið beggja komist að? Erum við ekki sammála um að það væri vont ef einungis önnur hliðin væri kynnt, ef það væri bara önnur hliðin sem kæmist að í fjölmiðlum. Fjölmiðlar spila afskaplega stóra rullu í þessu. Ef við gæfum okkur það, sem er ekki, að þetta væru skýrar spurningar — skiptum þeim bara í A og B og segjum að allir fjölmiðlar landsins væru fylgjandi A, væri það ekki eitthvað sem væri óeðlilegt? Vildum við ekki þá að B-hliðin fengi að komast að líka? Hefur eitthvað verið hugsað fyrir þessu?

Nei, virðulegi forseti. Við gengum fyrr á þessu kjörtímabili frá lögum um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu. Þar var ekki tekið á neinum af þessum þáttum. Þetta var samþykkt 25. júní 2010. Ég benti á þetta í umræðum þá og ég bendi á þetta aftur núna vegna þess að þessir hlutir fara ekki frá okkur. Ef við viljum, og ég er einn þeirra sem vilja það, sjá að þjóðin kjósi um fleiri hluti, ef við viljum gera það af einhverri alvöru þannig að það nýtist þjóðinni þá verðum við að huga að þessum þáttum. Við höfum ekki gert það. Þetta mál ber öll merki þess að ekki hefur verið vandað til verka.

Helstu fræðimenn þjóðarinnar á þessu sviði virðast vera sammála um það. Sigurður Líndal, prófessor við Háskólann á Bifröst, sagði til dæmis, með leyfi forseta: „Mér finnst þetta vera alger handarbakavinna og í raun algert klúður.“ Hann telur engan tíma til að undirbúa málið þannig að hægt sé að halda (Forseti hringir.) þjóðaratkvæðagreiðslu í sumar þar sem þjóðin geti tekið vitræna afstöðu.