140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[22:00]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður er miklu skynugri en svo að hann skilji ekki þær einföldu spurningar sem hér eru til umfjöllunar. Ég vildi aðeins ræða við hv. þingmann um eðlilega, lýðræðislega starfshætti og virðingu meiri hluta og minni hluta hvors fyrir öðrum og sjónarmiðum hvers annars.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið andvígur breytingum á stjórnarskrá og beitt sér mjög í umræðum um málið á fyrra kjörtímabili meðal annars til að varna því framgöngu. Ég geri ekki ráð fyrir öðru en að við munum eiga miklar og langar umræður um stjórnarskrána á næsta vetri, ég geri engar athugasemdir við það og held að við eigum að ná sem víðtækastri samstöðu. Hér er hins vegar ekki verið að leggja til samþykkt eða synjun á stjórnarskránni. Hér liggur fyrir lítið þingmál sem lýtur að því að meiri hluti þjóðkjörinna fulltrúa á Alþingi Íslendinga vill leita ráðgefandi álits þjóðarinnar á ákveðnum spurningum. Ég spyr hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson hvort hann telji ekki í raun og veru að það sé réttur meiri hlutans sem minni hlutanum beri að virða að fá að leggja spurningar fyrir þjóðina sem meiri hlutinn telur að geti hjálpað honum til að glöggva sig á því hvað rétt sé að gera í viðkomandi máli. Er það ekki of langt gengið að minni hlutinn varni því að lýðræðislegur meiri hluti á Alþingi Íslendinga leiti eftir ráðgefandi áliti sem ekki getur skaðað nokkurn mann, sem tekur engar eignir af neinum og ógnar ekki hagsmunum neins í samfélaginu? Er ekki of langt gengið að varna því framgöngu með þessum hætti?