140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[22:09]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum í síðari umr. þingsályktunartillögu um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga. Mér þykir afar leitt hvernig stjórnarliðið, þeir sem bera þessa tillögu uppi, hefur kosið að nálgast þessa umræðu í dag. Hv. þm. Róbert Marshall líkti þessu við kappleik og mikið er búið að gera úr því að við sjálfstæðismenn séum að beita málþófi, við séum að hindra það að lýðræðislegur meiri hluti nýti rétt sinn til að spyrja þjóðina spurninga í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég vil segja af þessu tilefni að hér er enginn að taka rétt af einum eða neinum. Lýðræðislegur meiri hluti hefur öll tækifæri til að halda eins margar þjóðaratkvæðagreiðslur og honum sýnist en það þarf bara að gæta þess að farið sé að lögum þegar verið er að skipuleggja og undirbúa slíkar þjóðaratkvæðagreiðslur. Það er það eina sem farið er fram á hér og þegar það er ekki gert er ekki hægt að koma eftir á og væna þá sem alla tíð hafa lýst efasemdum um þá framkvæmd um að beita brögðum við að stöðva mál þegar staðreyndin er sú að ekki var farið að lögum við þessa ákveðnu tillögu og málið þurfti einhvers konar flýtimeðferð. Og það get ég sagt að flýtimeðferð við afgreiðslu svo stórs máls eins og hvernig breyta skuli stjórnarskrá Íslands er ekki í boði. Hún hefur ekki verið í boði allan lýðveldistímann, það hefur verið leiðarstefið í öllum þeim breytingum á stjórnarskrá sem gerðar hafa verið. Það er nefnilega rangt að Alþingi hafi ekki tekist að breyta stjórnarskránni til þessa. Það hefur verið gert margoft, það hefur verið gert í stórum og smáum atriðum. Það er líka rétt að það eru önnur atriði sem ekki hefur verið pólitísk samstaða um að breyta og hvað hefur þá verið gert? Þá hafa þau verið lögð til hliðar eða unnið áfram að málinu þannig að hægt sé að ná um það niðurstöðu sem allir geta verið sáttir við af því að þetta er jú stjórnarskráin og hana ber að umgangast af virðingu.

Ég nefndi það við fyrri umr. tillögunnar og vil ítreka það að til marks um hvílík áhersla hefur verið lögð á að ná sátt um stjórnarskrárbreytingar að árið 2005 í tíð núverandi stjórnarandstöðuflokka, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, þar sem núverandi stjórnarflokkar voru í stjórnarandstöðu, Samfylking og Vinstri grænir, var sett á laggirnar stjórnarskrárnefnd undir forustu Jóns Kristjánssonar, þáverandi hv. þingmanns Framsóknarflokksins. Þetta var á tíma þegar mikil átök voru um þau atriði í stjórnarskránni sem menn höfðu áhuga á að breyta, þar á meðal málskotsrétti forsetans. Reyndar er það svolítið kúnstugt að nú hafa viðhorfin til þess álitamáls að mörgu leyti snúist við í pólitíkinni vegna þess að þá voru þáverandi stjórnarandstöðuflokkar, Samfylking og Vinstri grænir, mjög áfram um að standa vörð um málskotsrétt forsetans. Við vitum að það viðhorf hefur að vísu breyst. Sjálfstæðismenn höfðu efasemdir um þennan rétt og hafa margir hverjir enn þá og þess vegna náðist ekki samkomulag. Það sem var athyglisvert í þessari vinnu á þeim tíma var að þáverandi stjórnarandstöðuflokkar og núverandi stjórnarflokkar fóru fram á að fá neitunarvald í nefndinni. Minni hlutinn krafðist neitunarvalds í nefndinni. Af hverju? Væntanlega til að tryggja að meiri hlutinn valtaði ekki yfir minni hlutann í svo mikilvægu máli sem endurskoðun stjórnarskrárinnar er. Hvað gerði meiri hlutinn? Jú, formaður nefndarinnar, framsóknarþingmaðurinn Jón Kristjánsson, varð við þessari beiðni og tryggði þar með neitunarvald minni hlutans í þessari mikilvægu nefnd.

Af hverju ítreka ég þetta núna? Ég geri það vegna þess að hv. þm. Helgi Hjörvar kemur hér ítrekað og vænir minni hlutann á Alþingi um að taka rétt af meiri hlutanum. Ég er því allsendis ósammála. Í fyrsta lagi snýst þetta um það, eins og ég benti á í upphafi, að meiri hlutinn hefði getað knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu á tilteknum tíma samhliða forsetakosningunum ef vandað hefði verið til undirbúningsins en því var ábótavant. Hinn lýðræðislegi meiri hluti hefur öll tök á því að koma þessari hugmynd og þessari ætlan í framkvæmd hvenær sem hann vill svo framarlega sem hann gerir það rétt. Þetta er mjög mikilvægt.

Það sem við eigum að læra af þessu varðar einmitt vinnubrögðin við endurskoðun stjórnarskrárinnar. Við erum ekki sammála um það. Við sjálfstæðismenn vorum andvígir þeirri leið sem var farin en hún var engu að síður farin þrátt fyrir mótmæli okkar. Nú erum við komin á þann stað að við eigum að staldra við og athuga hvað við höfum gert í þessu ferli. Er kannski möguleiki á að ná saman, ná sameiginlegri niðurstöðu um hvernig halda beri þessari vinnu áfram með því að hvor aðili um sig gefi eftir?

Kíkjum á ferilinn. Höfum við haldið því frá þjóðinni að fá álit hennar á stjórnarskránni? Nei, ég vil meina að við höfum ekki gert það. Það hefur komið fram í umræðunni að það var að tillögu okkar sjálfstæðismanna við meðferð stjórnlagaþingsmálsins að settur var á laggirnar þúsund manna þjóðfundur, fólk af báðum kynjum, úr öllum landshlutum og á öllum aldri var fengið til að láta í ljós skoðun sína á stjórnarskránni. Síðan var sett á laggirnar stjórnlaganefnd sem í voru fræðimenn og sérfræðingar sem mér hefur svolítið fundist í þessari umræðu vera komnir úr tísku hjá þeim sem styðja þessa tillögu og ég vara við því. Ég er ekki sérfræðingur í stjórnarskránni, ég er ekki lögfræðingur en ég hef miklar skoðanir á stjórnarskránni og vil leita til sérfræðinga með málefni sem snerta stjórnarskrána vegna þess að þetta er lagagrundvöllurinn sem við byggjum á. Við byggjum löggjöf okkar á þessu, sömu löggjöf og við erum að setja á hverjum einasta degi í þessum húsi og þá verðum við að taka það til greina sem þeir sem gerst þekkja til og eru sérfræðingar á þessu sviði ráðleggja okkur og hvað þeir segja. Þeir hafa nefnilega varað við þessari leið.

Stjórnlaganefnd var sett á laggirnar og síðan var efnt til stjórnlagaþingskosninga. Við vitum hvernig sú kosning á endanum fór, Hæstiréttur úrskurðaði hana ólögmæta. Þá var gripið til þess ráðs í þinginu að setja á laggirnar stjórnlagaráð með sömu aðilum — reyndar ekki öllum, einn fulltrúi sem kjörin var til þingsins afþakkaði sætið í ráðinu, en lunginn var úr hópi þeirra fulltrúa sem kjörnir voru til stjórnlagaþings. Ég var ósammála þeirri leið. Mér þótti gengið á svig við dóm Hæstaréttar og það er eitthvað sem ég tel ekki farsælt en þetta var sú leið sem var valin. Stjórnlagaráðið tók til starfa og vann fína vinnu, allt góðir og áhugasamir og mætir einstaklingar sem lögðu sitt af mörkum með aðkomu sinni að þessu verki og skilaði plaggi, drögum að stjórnarskrá sem nú liggur fyrir að meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar vill fá álit þjóðarinnar á. Það er að verða tæpt að sú atkvæðagreiðsla náist af ástæðum sem ég hef rakið hér, þ.e. vegna þess hve seint tillagan kom fram og hvernig málið var undirbúið, nema menn kjósi að breyta lögum eftir páskahlé, það skal ekki útilokað. Auðvitað hefur stjórnarmeirihlutinn það í hendi sér að koma með frumvarp, sem breytir lögum sem setja þennan ákveðna frest sem við erum að tala um, ef það er eindreginn vilji stjórnarmeirihlutans.

Þá við ég leggja þetta inn í umræðuna: Af hverju tökum við ekki það sem við eru búin að fá frá „þjóðinni“, afrakstur þjóðfundarins, afrakstur stjórnlaganefndar, afrakstur stjórnlagaráðs og tökum það til efnislegrar meðferðar í þinginu sem er stjórnarskrárgjafinn, sem er stjórnlagaþing? Af hverju tökum við þetta ekki til efnislegrar meðferðar núna og förum yfir það? Við getum svarað þeirri spurningu fyrst: Viljum við setja alveg nýja stjórnarskrá? Við getum rætt það efnislega, kosti þess og galla. Fyrir fram er ég ekki stuðningsmaður þess en ég er tilbúin til að hlusta á rök. Við getum tekið efnislega umræðu um þau ákvæði sem helst þarf að breyta. Ég tel að stjórnlagaráð hafi gert mistök með því að semja heildstætt plagg, breyta öllu, vegna þess að þá fæ ég á tilfinninguna að verið sé að breyta bara til að breyta. Mér finnst ekki þörf á því. Mér finnst tímasetningin núna þegar við erum nýbúin að ganga í gegnum efnahagsþrengingar og erum enn að því, mér finnst þetta ekki rétti tíminn til að taka stjórnarskrána og kollvarpa henni. En gott og vel.

Byrjum á því að fara yfir núverandi stjórnarskrá, þetta plagg, það lætur ekki mikið yfir sér en þetta er plaggið sem við höfum notað frá því að lýðveldið Ísland var sett á laggirnar. Ég verð að segja og lýsa því sem minni skoðun að mér finnst þetta plagg hafa dugað vel, en það er ekki fullkomið og þess vegna skulum við taka þá umræðu. En það er ekki heldur að ástæðulausu sem það er sett í stjórnarskrá og er skrifað inn í stjórnarskrána hvernig skuli breyta henni og það er ekki einfalt. Það á ekki að vera einfalt að breyta stjórnarskrá vegna þess að slíkt á að vera afrakstur ítarlegrar skoðunar, ítarlegrar yfirlegu, ítarlegs samtals þjóðarinnar, þjóðkjörinna fulltrúa. Og það sorglega í þessari vinnu allri er að við virðumst hafa gefist upp á þessu. Mér finnst það of snemmt, mér finnst það ekki fullreynt. Frá því að ég settist á þing — ég er ekki hokin af þingreynslu, ég settist á þing árið 2007 — hef ég hef aldrei tekið þátt í efnislegri skoðun á stjórnarskránni. Við erum enn að rífast um hvernig eigi að breyta stjórnarskránni.

Ég gæti gagnrýnt ríkisstjórnina fyrir hitt og þetta í þessum efnum og að þessi vinnubrögð séu algerlega ótæk en mig langaði til að nýta tíma minn núna í að koma með mitt álit á því hvernig við getum tryggt að öll sú vinna sem farið hefur fram og allt það starf sem óteljandi aðilar hafa innt af hendi og lagt metnað sinn í geti nýst okkur en tökum ekki, bara af því að við erum ósammála í þessum sal, þetta allt og hendum því og byrjum upp á nýtt eða komum hingað aftur og rífumst enn og aftur um hvort og hvernig við eigum að koma þessu máli áfram. Ég held að við ættum að nota páskahléið til að draga andann djúpt og fara yfir þetta mál og setja það í raunverulega skoðun hvort við getum nálgast málið þannig að um það verði sátt. Ólíkt því sem ítrekað er haldið fram er það nú svo að við sjálfstæðismenn erum ekki á móti því að stjórnarskránni sé breytt. Við erum alls ekki á móti því og það sem meira er, við höfum sýnt það og sannað í gegnum tíðina vegna þess að við höfum tekið þátt í öllum þeim stjórnarskrárbreytingum sem gerðar hafa verið. Ég skal alveg viðurkenna það að ég er íhaldssöm þegar kemur að breytingum og aðrir eru róttækari en ég en þá er spurning hvort við getum ekki náð einhvers staðar saman á miðri leið og reynt að finna takt þar sem bæði róttækir og íhaldssamir geta sætt sig við og meira en það, verið ánægðir með afraksturinn. Þetta tókst til dæmis vel þegar mannréttindakaflinn var endurskoðaður í heild sinni. Ég held að þar hafi tekist afar vel til en eitt af því sem ég er ósammála í tillögum stjórnlagaráðs er að þar er hverri einustu grein breytt jafnvel þótt nýbúið sé að yfirfara hann og ég tel einfaldlega ekki þörf á því að breyta bara til að breyta. Við verðum að gæta að því að þetta er grundvöllur annarrar löggjafar og ef við ætlum ekki að setja þjóðfélagið í uppnám næstu árin með mismunandi túlkunum á dómsmálum með tilheyrandi málaferlum þá vil ég meina að íhaldssemi í þessum efnum sé ráðleg.

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Ég hefði viljað heyra sjónarmið stjórnarliða og þeirra sem styðja þessa tillögu um stjórnarskrána, ekki einhverja pólitíska leikjafræði sem mér finnst þetta mál ekki snúast um.