140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[22:42]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Nú er maður settur í dálítinn vanda við atkvæðagreiðsluna ef til hennar kemur vegna þess að það segir í spurningunni eða öllu heldur er henni stillt svona upp, með leyfi forseta:

„Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi?“

Ég verð að taka undir með þeim sem hafa bent á það í umræðunni í dag, reyndar er aðeins fjallað um þetta að ég hygg í nefndaráliti fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, að það er ekki augljóst að maður vilji nýja stjórnarskrá. Kannski viljum við bara stjórnarskrána sem við höfum og breyta henni. Ef það er áskilnaður að maður þurfi bæði að svara því játandi að maður vilji nýja stjórnarskrá og að í henni verði þjóðkirkja getur vel verið að margir lendi í vafa. Það er hins vegar rétt hjá hv. þingmanni að ég hallast að því að halda þjóðkirkjuákvæðinu í gildandi stjórnarskrá.

Komið er inn á hvort sú breytingartillaga sem lögð hefur verið fram þurfi ekki að fá umsögn svo sem mælt er fyrir um. Það kann vel að vera. Ég flyt ekki þessa breytingartillögu þannig að ég ætla ekki að taka að mér alla ábyrgð á því hvernig spurningar eru orðaðar og annað þess háttar, hvernig fara ber með þær í þinginu. Ef það stangast á við lög að tefla fram spurningum án þess að hafa borið orðalag þeirra áður undir landskjörstjórn þá er það ekki nógu gott mál. Ég vil ekki úttala mig um hvort það þýði að kosningin verði ólögmæt fyrir vikið. Þar held ég að sé kannski fulldjúpt í árinni tekið.

Allt er þetta til komið vegna þess að málinu er teflt fram í algerri tímapressu. Menn hafa haft þrjú ár til að undirbúa spurningar fyrir þessar forsetakosningar (Forseti hringir.) en þær eru fyrst lagðar fram í þessari viku.