140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[22:46]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst ein leiðrétting. Hún er sú að Sjálfstæðisflokkurinn flytur ekki þessar breytingartillögur og allar tilraunir til að kenna Sjálfstæðisflokknum sem stjórnmálaflokki um, eins og hv. þingmaður gerir, eru augljóslega vindhögg. Breytingartillögurnar eru fluttar af tveimur fulltrúum í stjórnlaganefnd.

Mér finnst alveg þess virði að ræða það hvort þetta atriði gæti mögulega valdið ólögmæti kosningarinnar. Þetta eru tvær óskyldar kosningar, annars vegar til forsetaembættisins og hins vegar þessi skoðanakönnun sem meiri hluti nefndarinnar vill að fari fram. Ég verð að segja að mér finnst mjög langsótt að forsetakosningin kunni að verða dæmd ólögmæt vegna ágalla við framsetningu á spurningum í þessari skoðanakönnun. Samkvæmt lögunum skal Alþingi að fenginni umsögn landskjörstjórnar ákveða orðalag og framsetningu spurninga. Landskjörstjórn hefur umsagnarrétt en hún hefur ekkert úrslitavald um það hvað þingið gerir varðandi orðalag og framsetningu og hefur heldur engan frumkvæðisrétt að nokkru leyti. Ég tel að það þyrftu að vera mjög skýrir efnislegir ágallar á spurningunni, ekki síst í því ljósi að þetta er bara skoðanakönnun, þetta er ráðgefandi óbindandi könnun um spurningar sem ráða engu máli til úrslita. Ég held að við hljótum að geta verið sammála um það, ég og hv. þingmaður, að með þeim rökum að slík umsögn liggi ekki fyrir væri býsna langt gengið að ógilda alla kosninguna.

Allt eru þetta vangaveltur sem eru til komnar vegna þess tímafrests sem meiri hluti nefndarinnar hefur teflt þessu máli í. Ég vek athygli á því að það er í sjálfu sér engin lögbundin nauðsyn að vinna þetta mál á grundvelli þingsályktunartillögu. (Forseti hringir.) Hafi menn ekki tíma til að koma þingsályktunartillögu í gegnum þingið á réttum tíma var þeim í lófa lagið að leggja fram lagafrumvarp og setja sérlög um að kosning skyldi fara fram í lok júní. Það hefði vel verið hægt að ákveða það með sérlögum. (Forseti hringir.) Þá væru engir frestir sem menn væru bundnir af.