140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[22:48]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Herra forseti. Ég ræði um tillögu til þingsályktunar um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu, um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga og tiltekin álitaefni þeim tengd.

Þetta er fyrsta ræða mín í þessari umferð málsins og ég fagna því að komast að á mælendaskrá þrátt fyrir að ýmsir, að því er mér heyrist, hafi komið og kvartað yfir því í umræðunni í dag að þingmenn nýti sér þann rétt sem þeir hafa til að tjá sig um þau mál sem hér eru á dagskrá. Ég skil einfaldlega ekki þær athugasemdir.

Mig langar að byrja á því að lýsa almennt afstöðu minni til stjórnarskrárinnar, til þeirra breytinga og þess breytingaferlis og í rauninni endurritunarferlis sem núverandi ríkisstjórn hefur sett af stað varðandi stjórnarskrána. Ég hef miklar efasemdir um að þörf sé á svo viðamiklum breytingum á stjórnarskránni sem fjölmargir þingmenn hafa talað fyrir á undanförnum árum. Ég lýsi því yfir að ég er frekar íhaldssöm varðandi breytingar en tel þó rétt að þingheimur allur fari yfir það hvaða ákvæði er rétt og tímabært að endurskoða. Það er leiðinlegt að upplifa að menn séu svo heiftúðugir í baráttunni í þessu máli, eins og maður hefur orðið vitni að í kvöld, í stað þess að fara saman yfir þetta verkefni. Við þingmenn lýsum því yfir á tyllidögum að rétt væri að taka upp þau vinnubrögð að við ynnum saman í þinginu, en þegar á reynir er enginn vilji til þess, þvert á móti. Það er mjög sorglegt að upplifa það og sérstaklega í þessu máli sem varðar sjálfa stjórnarskrána.

Fyrsta atriðið sem ég staldraði við þegar ég sá málið frá meiri hluta nefndarinnar voru spurningarnar. Hvers vegna voru þessar spurningar valdar en ekki einhverjar aðrar? Það efni sem fyrir liggur frá stjórnlagaráði gefur tilefni til að leggja margar aðrar spurningar fyrir þjóðina. Ég hef, þrátt fyrir mikla umræðu um málið, ekki enn þá áttað mig á því hvers vegna meiri hlutinn ákveður að velja þessar spurningar en ekki ýmsar aðrar. Ef menn velta því fyrir sér hvaða álitaefni það eru sem helst hafa verið uppi á borðinu og verið í umræðunni á undanförnum missirum er það til dæmis embætti forseta Íslands og þær heimildir sem forsetaembættið hefur til að synja lögum staðfestingar. (Gripið fram í.) Hvers vegna er ekki tillaga tengd því frá meiri hluta nefndarinnar? (Gripið fram í.) Það má spyrja um það. Hvers vegna tekur meiri hlutinn ekki heildstætt á þeim tillögum sem stjórnlagaráð hefur lagt fram?

Hæstv. utanríkisráðherra kallar fram í. Mig langar að gefnu tilefni að benda honum á að hér er hægt að setja sig á mælendaskrá og það er tilefni fyrir ráðherrana að hætta þessum endalausu frammíköllum. Það er ósiður í þinginu og ráðherranum ekki til sóma.

Að sjálfsögðu hefur meiri hluti nefndarinnar málið á forræði sínu og ætti þess vegna að vera búinn að útskýra það með ítarlegri hætti en gert hefur verið fyrir mér og öðrum sem hér starfa og þurfa að taka afstöðu til þessa hvers vegna þær spurningar sem hér liggja frammi eru valdar fremur en aðrar (Gripið fram í.) fyrst valið er að fara þessa leið.

Ég er ekki í ríkisstjórn og sit ekki í nefndum fyrir ríkisstjórnarflokkana og það eru ríkisstjórnarflokkarnir sem hafa forræði á þessu máli. Þeir hafa haft þrjú ár til að vinna að málinu og klára það. Ég trúi því að það sé hjartans mál mjög margra þingmanna í stjórnarliðinu að breyta stjórnarskránni og jafnframt sumra annarra þingmanna eins og til dæmis þingmanna Hreyfingarinnar. Þess vegna er það skrýtið að horfa upp á þau vinnubrögð sem maður hefur orðið vitni að í kvöld, menn eru á handahlaupum að reyna að redda sér í tímapressu og koma einhverjum málum í gegn. Þeir vilja að láta okkur sem reynum halda fram sjónarmiðum okkar (Gripið fram í: Nei.) fá samviskubit yfir því að ætla að halda eina ræðu um málið. Þeir halda því fram að við séum að eyða tímanum af því að klukkan sé að nálgast 12. Hvers vegna var málið einfaldlega ekki lagt fram fyrr? Þessi vinnubrögð eru ekki við hæfi. Ég trúði því, sérstaklega eftir að við fórum ásamt virðulegum forseta yfir skýrslu þingmannanefndarinnar, að við ætluðum okkur öll að ástunda betri vinnubrögð hér, hafa opnari stjórnsýslu almennt á Íslandi og meiri kurteisi og heiðarleika í þingsalnum. Það veldur mér því sorg í hjarta að horfa upp á þessi vinnubrögð í dag.

Herra forseti. Í ræðu minni við fyrri umr. þessa máls fór ég yfir þá aðferðafræði sem almennt er beitt þegar spurningar í stórum könnunum eða rannsóknum eru gerðar. Ég fór yfir þær meginreglur sem hafa þarf þar í huga og fór svo yfir þær spurningar sem meiri hluti nefndarinnar hefur lagt fram með tilliti til þeirra meginreglna. Það er gott að sjá að meiri hluti nefndarinnar hefur farið yfir þær spurningar sem lagðar voru fram upphaflega og sniðið af þeim ákveðna ágalla. Það er ágætt út af fyrir sig en þó er ekki öllum athugasemdum mínum svarað varðandi þær spurningar sem hér liggja fyrir.

Ég ætla rifja það upp í örstuttu máli að við gerð spurninga er mjög mikilvægt að þær spurningar sem lagðar eru fyrir séu mælitæki og það tæki verður að vera áreiðanlegt og réttmætt til að það skili einhverjum árangri, til að maður fái einhverja niðurstöðu sem hægt er að vinna með. Til þess að það sé mögulegt verður fólk sem tekur þátt í könnun eða svarar spurningunum í atkvæðagreiðslu að skilja nákvæmlega hvað meint er með hverri spurningu. Það er grundvallaratriði, annars mundi ég skilja spurninguna á einn hátt, hv. þm. Kristján Þór Júlíusson á annan hátt og frænka mín, hún Harpa á Bakka, á þriðja veg og svörin yrðu út og suður eftir því. Hvað mundum við gera með slíka niðurstöðu? Þetta er það sem hinn almenni einstaklingur hefur í huga til dæmis við undirbúning rannsóknarverkefnis uppi í háskóla, þetta er það sem hann hefur í huga þegar hann býr til spurningar fyrir rannsókn sína. Í allri slíkri vinnu verður sá sem spyr spurninganna að vanda sig vel í upphafi. Ég held að öllum sé ljóst að hér hefur það ekki verið gert.

Það er mikilvægt að nota einfalt og skýrt orðfæri þannig að allir skilji hvað við erum að tala um, að menn varist leiðandi spurningar og spurningarnar þurfa að vera í jafnvægi og þannig að hægt sé að svara þeim á einfaldan hátt. Jafnframt mega spurningarnar ekki vera með yfirgnæfandi vísan í eitthvað sem allir eiga að þekkja en gera það samt ekki og menn forðist þess vegna að svara spurningum, líkt og í fyrri útgáfu þjóðkirkjuspurninganna. Ég fagna því að meiri hlutinn hefur þá séð þá ábendingu að sú spurning var of illa fram sett vegna þess að þar var gert ráð fyrir því að allir sem svara mundu spurningunni í þjóðaratkvæðagreiðslu þekktu núverandi ákvæði í stjórnarskrá. Það hefur verið tekið, búið er að breyta orðalaginu og gera það einfaldara, eins og ég og margir fleiri þingmenn bentu á í gær og það er ágætt.

Síðan er eitt atriði sem er mikilvægt, þ.e. að maður forprófi á einhvern hátt þær spurningar sem maður ætlar að leggja fram þegar maður gerir rannsóknir eða kannanir. Vissulega kom fram að landskjörstjórn hefur litið yfir spurningarnar en mér er spurn hvort hægt hefði verið að forprófa með einhverjum hætti spurningarnar þannig að gerð yrði stikkprufa og til dæmis kannað hvort menn skildu almennt efni spurninganna á sama hátt.

Í rannsóknum tekur maður lítinn hóp, til dæmis einn bekk sem er að læra aðferðafræði upp í háskóla, og biður hann um að svara stuttum spurningalista og tekur viðtöl við viðkomandi. Þá fær maður tilfinningu fyrir því hvort það sem maður hefur lagt fram sé gott, nægilega vel unnið eða ekki. Það er tiltölulega einfalt og þrátt fyrir að við höfum stuttan tíma til ráðstöfunar tel ég að það hefði verið til bóta að fara þá leið. Kannski er hægt að gera það næst þegar við förum í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Varðandi þær breytingar aðrar sem gerðar hafa verið á þeim spurningum sem meiri hlutinn lagði fram í upphafi er mjög til bóta að svarkostirnir hafa verið einfaldaðir og í flestum tilvikum er einfaldlega hægt að svara já eða nei. Það er gott en engu að síður eru enn þá inni löng svör við fyrstu spurningunni og ég tel fullkomlega óþarft að hafa það þannig. Það væri einfaldlega hægt að hafa bara já eða nei. Ég skil ekki af hverju þetta er gert svona flókið eins og það er þarna.

Í annarri spurningu eru tvö orð sem ég tel að gætu valdið ruglingi, þ.e. sem ég gæti skilið á annan hátt en til dæmis hæstv. ráðherra Össur Skarphéðinsson, það eru orðin „náttúruauðlindir“ og „þjóðareign“. Það eru orð sem við skiljum hvert og eitt á ólíkan hátt. Ég var þegar búin að fara yfir þjóðkirkjuákvæðið, sem er orðið betra en það var, en ég átta mig ekki alveg á spurningunni og fagnaði því að heyra hv. þm. Bjarna Benediktsson vísa áðan í 2. mgr. 79. gr. núverandi stjórnarskrár í ræðu sinni varðandi með hvaða hætti hægt væri að breyta kirkjuskipan ríkisins. Í 2. mgr. 79. gr. stjórnarskrárinnar okkar, sem er í gildi á Íslandi og verður í gildi þangað til búið er að samþykkja á fullkominn hátt aðra stjórnarskrá, segir, með leyfi forseta:

„Nú samþykkir Alþingi breytingu á kirkjuskipun ríkisins samkvæmt 62. gr., og skal þá leggja það mál undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar, og skal atkvæðagreiðslan vera leynileg.“

Hér er gert ráð fyrir sérstakri atkvæðagreiðslu ef breyta á kirkjuskipan ríkisins. Ég hef ekki fengið svar við þeirri spurningu hvort ekki þurfi að fara að því ákvæði núverandi stjórnarskrár að mati meiri hlutans ef gert er ráð fyrir að breyta ákvæðinu frá því sem nú er.

Í fjórðu spurningu meiri hluta nefndarinnar er talað um persónukjör. Sú spurning er óbreytt þannig að athugasemdir mínar frá því í ræðu minni fyrir tveim dögum síðan standa óhreyfðar. Þarna er vísað í persónukjör í kosningum til Alþingis.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði persónukjör í kosningum til Alþingis heimilað í meira mæli en nú er?“

Þarna er gert ráð fyrir því að allir skilji persónukjör á sama hátt og hvað við er átt varðandi það. Ég er ekki viss um að það sé eitthvað sem allir þekkja til þrautar á þessum sviði. Það er ekki oft notað í kosningum til Alþingis en hægt hefur verið að strika út nöfn af lista. Ég sá það í nefndarálitinu frá meiri hlutanum að hann ætlar sér að fara í mjög mikla kynningu á því hvað stendur í lögum um kosningar til Alþingis varðandi persónukjör. Allt í lagi, það er þá gott að reynt sé að finna einhverja leið til að skýra betur spurninguna en þá kemur sá hluti spurningarinnar betur fram en nú. Hvað þýðir það? Það er mjög óljóst. Í hvaða átt á þetta að breytast? (Gripið fram í.) Á sá sem svarar að segja: Já, ég vil það í 100% tilvika? Eða: Já, ég vil lítils háttar breytingu, eða hvernig ætlum við að nota svarið? Það er það sem ég skil ekki alveg af því að það er svo loðið.

Síðan kemur fimmta spurningin sem fjallar um jafnt atkvæðavægi. Ég sagði í fyrradag að mér þætti orðalagið óþarflega flókið en kannski hefur verið lagst yfir það í nefndinni og reynt að einfalda það en ekki tekist, ég þekki það ekki, ég sá það alla vega ekki í nefndarálitinu.

Síðan fagna ég því að sjötta spurningin hefur verið einfölduð og tekinn út mælikvarðinn þar sem hægt að velja ákveðnar prósentutölur varðandi hversu stór hluti kosningabærra manna má krefjast þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu. Búið er að taka það út og það er til bóta.

Síðan á að koma skýringartexti inn í kjörseðilinn um hvernig stjórnarskrá er breytt. Það er svo sem ágætt en ég vil þó minna á að kjörseðillinn verður að vera einfaldur og ekki of mikið lesmál en þetta er örugglega ágætt nema það stangast á við það sem meiri hlutinn ætlar sér að gera. Ég skil ekki alveg athugasemd í nefndaráliti meiri hlutans á bls. 3 þar sem fjallað er um gildistöku nýrrar stjórnarskrár, það er sérkafli í nefndarálitinu sem heitir „Gildistaka nýrrar stjórnarskrár“. Þar segir, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn er þeirrar skoðunar að frumvarp Alþingis, að aflokinni síðari samþykkt þess skv. 79. gr. gildandi stjórnarskrár, eigi að bera undir þjóðina til endanlegrar staðfestingar og gildistöku í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Þarna gerir meiri hlutinn ráð fyrir því að stjórnarskránni verði breytt á þann hátt að til þess að ný eða breytt stjórnarskrá taki endanlega gildi þurfi að fara fram bindandi þjóðaratkvæðagreiðsla að aflokinni síðari samþykkt Alþingis. Það er andstætt núgildandi stjórnarskrá og af einhverjum ástæðum truflar það mig afskaplega varðandi hvernig við eigum að vinna að breytingum á stjórnarskránni. Núna er í gildi stjórnarskrá og við hljótum að þurfa að fara eftir henni þangað til hún fellur úr gildi. Það birtist okkur í þeim texta sem fara á á kjörseðilinn um hvernig stjórnarskrá skuli breytt vegna þess að þar er að sjálfsögðu ekki vitnað í neitt annað en hvernig breyta skuli stjórnarskrá samkvæmt stjórnarskránni eins og hún er núna. Þess vegna skil ég ekki hvernig meiri hlutinn hugsar þetta. Það væri mjög gott að fá útskýringu á því frá nefndarmönnum vegna þess að ég hef ekki fengið hana í dag. Ég geri mér grein fyrir því að fyrir liggur álit einhverra sérfræðinga um að þetta sé fær leið, en ef lögfesta á að stjórnarskrárbreytingar taki ekki gildi fyrr en að lokinni bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu væri rétta leiðin að mínu viti sú að breyta fyrst 79. gr. Það tekur heilt kjörtímabil að gera það eins og sagan segir okkur en það er samt rétta leiðin að mínu mati ef bæta á þessu inn. Það væri mjög fróðlegt að heyra það frá nefndinni hvernig þetta er hugsað. Þetta rímar að minnsta kosti alls ekki við það sem standa á á kjörseðlinum.

Frú forseti. Þetta eru þau atriði sem ég taldi rétt að hlaupa yfir varðandi þá þingsályktunartillögu sem liggur frammi og ég fagna því að ég fái að nota ræðutíma minn til þess. Þær meginreglur sem ég vitnaði í varðandi spurningar og uppbyggingu spurningakannana hef ég meðal annars úr Handbók í aðferðafræði og rannsóknum í heilbrigðisvísindum, sem gefin var út af Háskólanum á Akureyri árið 2003, þar á meðal úr 18. kafla sem Þorlákur Karlsson skrifaði, þannig að því sé haldið til haga. Ég gleymdi að minnast á það í upphafi ræðu minnar en hafði gert það í ræðu minni við fyrri umr.

Jafnframt hafa komið fram mjög margar breytingartillögur við meðferð málsins frá hinum og þessum þingmönnum. Ég verð að segja að þegar ég undirbjó mig undir þessa ræðu og kynnti mér þau nefndarálit sem fyrir liggja gafst mér ekki tími til að rýna þær breytingartillögur með sama hætti og ég gerði varðandi breytingartillögurnar sem við sáum fyrr í vikunni. Það væri mjög gott ef hægt væri að gefa okkur einhvern tíma til að fara yfir þær vegna þess að fram kom í andsvari áðan að menn hafa áhyggjur af því að engin breytingartillagnanna hefur fengið umsögn frá landskjörstjórn. Ég geri ráð fyrir því að fáar þeirra séu unnar í samráði við til dæmis þá menn í Háskóla Íslands sem hafa atvinnu og mikla reynslu af því að búa til spurningar, þannig að vissulega væri gott ef tími gæfist til að yfirfara tillögurnar áður en þær verða samþykktar, ef svo verður, meðal annars með hliðsjón af þeim meginreglum sem ég fór yfir áðan.

Mig langar þó að geta um eina breytingartillögu sem er frá hv. þm. Þorgerði K. Gunnarsdóttur sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Við 3. efnismgr. bætist nýr töluliður er orðist svo:

Vilt þú að þingmönnum verði fækkað úr 63 í 51?“

Já eða nei. Þetta er dæmi um tiltölulega skýra og einfalda spurningu sem ég tel að sé ágætlega ígrunduð með tilliti til þeirra meginreglna sem ég fór yfir. Ég tel að það væri mjög hollt fyrir okkur öll að fá svar við því hvað þjóðinni finnst um það. Síðan þætti mér best ef til stendur að fara í þessa þjóðaratkvæðagreiðslu að það jafnframt yrði spurt að því hvort menn vilji yfir höfuð ráðast í grundvallarbreytingar eða viðamiklar breytingar á stjórnarskránni.