140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[23:09]
Horfa

Magnús M. Norðdahl (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er nú eiginlega ekki andsvar heldur svar af því að spurt var ákveðinnar spurningar. Þetta er lagatæknilegt atriði og það er hægt er að nálgast það á tvennan hátt. Hægt er að gera það þannig að fyrst sé stjórnarskránni breytt og þetta sett inn en auk þess er hægt að setja þetta inn í bráðabirgðaákvæði í heildstæðri nýrri stjórnarskrá sem tæki þá gildi við tvennar kosningar með þessu ákvæði inniföldu. Að svo búnu færi þjóðaratkvæðagreiðslan fram.

Hvers vegna er þetta atriði þarna inni? Ástæðan fyrir því er sú að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd er það mjög vel ljóst að það er ekki eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði, að Alþingi sé stjórnarskrárgjafinn. Ég held að það hafi verið endurtekið í ræðu hv. síðasta þingmanns sem flutti hér ræðu. Það er ekki svo. Hver er þessi stjórnarskrárgjafi? Það er ekki kóngurinn sem styttan er af niðri við Stjórnarráð. Það er ekki Alþingi Íslendinga. Þeir eru jú formlegur handhafi ákveðins valds. Það er þjóðin sem er stjórnarskrárgjafinn. Það er þjóðin sem skammtar Alþingi vald, það er ekki Alþingi sem skammtar þjóðinni vald. Þetta eru grundvallaratriði í stjórnskipun allra vestrænna ríkja og ég er svolítið hissa á því að menn skuli halda hinu gagnstæða fram.