140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[23:37]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég hlustaði með athygli á hv. þingflokksformann Sjálfstæðisflokksins, Ragnheiði Elínu Árnadóttur, sem fékk hér 20 mínútur til þess að tala í dag. Ég er fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Ég hef látið sjálfstæðismönnum sviðið eftir í dag. Ég hef hvað eftir annað tekið mig af mælendaskrá og flutt mig aftar til að reyna að tryggja að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins, sem er svo mikið í mun að tala hér, tala málið í hel enn eina ferðina, kæmust að í þeirri veiku von að þeir sæju sóma sinn í því að leyfa lýðræðislegum meiri hluta á Alþingi að greiða atkvæði um málið sem hér liggur fyrir.

Það var auðvitað borin von og þegar leitað er eftir samkomulagi, gerð úrslitatilraun til að ná samkomulagi um atkvæðagreiðslu, hver skyldi þá hafa verið einn á móti? (Forseti hringir.) Hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir og það er hún sem stjórnar hér.