140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[23:40]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Hér stendur enn þá yfir umræða um dagskrármálið og ég mæli með því að hún haldi áfram þar til henni er lokið og ég skora á þingmenn að taka þátt í henni, þá sem vilja koma með efnislegt innlegg í málið, vegna þess að dagsetningin 30. júní getur ekki verið aðalatriðið í þessu máli. Ef þetta snýst um að leita eftir lýðræðislegum vilja þjóðarinnar, ef þetta snýst um samtal við þjóðina, ef þetta snýst um að þingið verði að heyra rödd þjóðarinnar, getur dagsetningin 30. júní ekki verið aðalatriðið. Þá getur hver sem er í þessum þingsal lagt fram breytingartillögu um þessa dagsetningu og þannig getur (Utanrrh.: Ertu farinn að skammast þín?) samtalið við þjóðina átt sér stað óháð dagsetningunni, (Gripið fram í.) hæstv. utanríkisráðherra, sem ætti náttúrlega að skammast sín fyrir framgöngu sína í þessu máli. (Gripið fram í.)