140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[23:47]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það er þyngra en tárum taki að verða vitni að þessum skrípaleik sjálfstæðismanna hér, að verða vitni að því hvernig menn voga sér að beita fundartæknilegum klækjabrögðum til þess að þæfa mál. Þetta er eitt mikilvægasta málið sem kallað hefur verið eftir á þessu kjörtímabili, þetta er eitt af mikilvægustu málunum sem komu upp fyrir síðustu kosningar. Þetta er mál sem þjóðin lætur sig öll varða.

Við urðum vitni að því fyrir kosningarnar 2009 hvernig Sjálfstæðisflokkurinn lét í því máli með málþófi og hvernig þeir hafa brugðist við í þessari umræðu frá upphafi. Þeir hafa verið á móti málinu frá upphafi, þeir eru á móti því, þeir ætla að þumbast og þvælast fyrir eins og þeir geta en ekki á málefnalegum forsendum, ekki á grundvelli rökræðunnar heldur með fundartæknilegu þvargi. Þetta er til skammar.