140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[23:53]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Nú er orðið ljóst að hluta stjórnarandstöðunnar, nánar tiltekið sjálfstæðismönnum, hefur tekist að koma í veg fyrir að vilji meiri hluta Alþingis nái fram að ganga. Það hafa þau gert með því að tala í tíu tíma um mál sem er fullunnið, mál sem snýst um það hvort fólkið í landinu fái að lýsa hug sínum til þess 30. júní hvort það vilji að ný stjórnarskrá verði samin á grundvelli tillagna stjórnlagaráðs en það má ekki.

Málþófið heppnaðist, sjálfstæðismenn kæra sig kollótta um mikla vinnu sem margt fólk hefur lagt á sig í þessu máli, kæra sig kollótta um það að fjölmargt fólk hefur skoðun á því hvernig stjórnarskráin í landinu á að vera. (Gripið fram í.) Og sjálfstæðismenn kæra sig kollótta um það að fjölmargt fólk vill segja hug sinn í því efni. Nei, virðulegi forseti, notast skal við gömlu aðferðirnar við gerð nýrrar stjórnarskrár. Við það borð skulu útvaldir einir sitja.

Einn hv. fulltrúi Sjálfstæðisflokksins boðaði í framsögu sinni í morgun að Sjálfstæðisflokkurinn ynni að frumvarpi að nýrri stjórnarskrá og það stendur reyndar svart á hvítu í nefndaráliti 1. minni hluta. Það er sannarlega líklegt að það verði til sátta. En við skulum líka vita að þegar þeir tala um sættir eða sátt eiga þeir við nauðasátt. Þannig er nú það.

Virðulegi forseti. Ég fagna því að forseti hyggst fresta þessari umræðu, hún mun engu skila hér í kvöld.

Virðulegi forseti. Við gefumst ekki upp, við munum halda áfram að vinna að gerð stjórnarskrárinnar í samvinnu og í samráði við fólkið í landinu en ekki í bakherbergjum með einhverjum útvöldum. Sjálfstæðismenn stoppa okkur ekki í því. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)