140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[23:56]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ótrúlegt að hlusta á þennan málflutning hér í kvöld. Ég fór yfir það áðan hve fáir í raun úr okkar röðum hafa talað og hve margir eiga eftir að flytja ræður um þetta mál. Það er alveg furðulegt að hlusta hér á málflutning stjórnarþingmanna. Það má ekki skilja stjórnarþingmenn öðruvísi af þeirri umræðu sem hér hefur farið fram en að þeir séu hættir við þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Má skilja það þannig að þeir séu hættir við þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mál? (Gripið fram í.) Það er ekki hægt að skilja það öðruvísi. Og hvað er þá málið? Ef menn eru ekki hættir við þjóðaratkvæðagreiðslu rofnar það eitthvað við að haldnar séu forsetakosningar 30. júní? (Gripið fram í: Það eru 100 milljónir.) 100 milljónir? Skipta peningar allt í einu máli þegar lýðræðið á í hlut? Er það ekki bara orðið þannig í þessu samfélagi að þegar lýðræðið og kommúnisminn mætast skal lýðræðið víkja? [Háreysti í þingsal.] Er að ekki þannig sem það er orðið? (Forseti hringir.) Það er nefnilega nákvæmlega það sem hér er í gangi að þegar lýðræðið og kommúnisminn mætast skal lýðræðið víkja. [Háreysti í þingsal.] (Gripið fram í: Það eru kommarnir.) Já, það eru kommarnir í þessari ríkisstjórn sem koma svona fram við umfjöllun um stjórnarskrá lýðveldisins. (Forseti hringir.) Það er ekkert annað hér í gangi.

Þetta eru sömu flokkarnir, þetta er sama fólkið og hafnaði hér þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave, hafnaði hér þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB, hafnaði samtali við þjóðina og kemur svo hér skinheilagt og heldur einhverju allt öðru fram. (Forseti hringir.) Hvar voru þau rök öll sem hafa verið flutt fyrir þessari þjóðaratkvæðagreiðslu þá? Þá þurfti ekki samtal við þjóðina (Forseti hringir.) um þau stóru og mikilvægu mál.

(Forseti (ÁRJ): Þegar forseti slær í bjöllu á hann erindi við þingmenn.)

Ég heyrði það bara ekki, frú forseti, það var svo mikið skvaldur.

(Forseti (ÁRJ): Hv. þingmenn eru beðnir að gæta orða sinna hér í sal. (Gripið fram í: Þegar ræðumaður …) Gæta orða sinna og gefa ræðumönnum hljóð og biður ræðumenn einnig um að gæta orða sinna. (Gripið fram í: Ertu að vísa í ræðuna?) )

Virðulegi forseti. Ég vil bara segja það að lokum að það er náttúrlega engum um að kenna hvernig hér er komið í þessu máli öðrum en stjórnarliðum. Það er haldið þannig utan um þetta mál að það er ekki til neins sóma fyrir neinn (Forseti hringir.) sem þar að hefur komið. (Gripið fram í: Nema kommana.) Ég held að menn ættu að reyna að láta þessa umræðu fara fram (Forseti hringir.) málefnalega og boða síðan til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið ef þeir kæra sig um. [Frammíköll í þingsal.]

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður menn um að virða hér tímamörk.)