140. löggjafarþing — 81. fundur,  30. mars 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[11:08]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það hefur einmitt verið reynt að mæta þeim sjónarmiðum og þeirri gagnrýni sem hefur verið á núverandi innheimtu veiðigjalds með ýmsum hætti í þessu frumvarpi, þar á meðal með því að framreikna á grundvelli vísitalna bestu fáanlegar og nýjustu upplýsingar um raunverulega afkomu. Það mun til dæmis skipta miklu fyrir sjávarútveginn ef gengið styrkist eða afurðaverð lækkar, þá er verðvísitala sjávarútvegs notuð til framreiknings á nýjustu gögnum eins nálægt í tíma og hægt er áður en ákvörðun um álagningu veiðigjalds á því ári fer fram, kostnaðarliðir framreiknaðir eftir atvikum með neysluverðsvísitölu og byggingarvísitölu. Það er liður í því að sníða ágallana af eldra fyrirkomulagi sem tók mið allt of langt aftur í tímann.

Það að nálgast auðlindarentuhugsunina í gegnum hefðbundna tekjuskattlagningu missir dálítið marks. Flestar tilraunir til að gera það hafa ekki reynst auðveldar í framkvæmd eða árangursríkar, heldur verði andlagið með einhverjum hætti að vera sjálf viðbótarrentan (Forseti hringir.) þegar til skattlagningarinnar kemur. Ég skal hins vegar fúslega viðurkenna að þetta hefur mikið verið skoðað og menn hafa vissulega velt þessu mjög mikið fyrir sér.