140. löggjafarþing — 81. fundur,  30. mars 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[11:20]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hvet hæstv. ráðherra til að kynna sér af hverju hagvöxtur er á ákveðnum svæðum í Kína áður en hann talar með þessum hætti. Það er örugglega ekki með því að fara þennan ríkis- og áætlunarbúskap sem hæstv. ráðherra vill fara.

Eftir stendur að þótt við hefðum sannarlega þessar ríkulegu auðlindir rétt við 200 mílurnar gekk áður ekki vel í íslenskum sjávarútvegi. Það gengur ekki vel í sjávarútvegi í Evrópusambandinu þótt þar séu ríkulegar auðlindir. Hér gengur vel vegna þess að menn hafa haft ákveðið kerfi sem hefur skilað arði. Hæstv. ráðherra getur ekki haldið því fram með nokkrum hætti að hann sé að viðhalda því. Þvert á móti ganga bæði þetta frumvarp og þó sérstaklega hitt frumvarpið út á að breyta því. Hann hlýtur að telja sig vera kominn með eitthvert annað kerfi sem á þá að skila þessu. Ég spurði hins vegar af hverju í ósköpunum það hefði ekki verið tekið út vegna þess að við vitum að mörg fyrirtæki munu fara á höfuðið í tengslum við þetta. Þetta mun hafa mikil áhrif á fjármálastofnanir og ýmist eru þær í ríkisábyrgð eða það var gengið þannig frá með samningum sem hæstv. ráðherra gerði að kröfuhafar bera ekki skaða af því (Forseti hringir.) þegar stjórnvaldsaðgerðir hafa áhrif á efnahag og afkomu bankans.

Sömuleiðis spurði ég út í nýfjárfestingar. Menn munu ekki á sama tíma greiða skatt og fjárfesta í verksmiðjum og skipum (Forseti hringir.) og öðru, sérstaklega á landsbyggðinni.