140. löggjafarþing — 81. fundur,  30. mars 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[11:21]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er ekki verið að fara í grundvallarbreytingar á kerfinu hvað það varðar að við ætlum að byggja hér áfram á aflahlutdeildar- og aflamarksfyrirkomulagi við stjórn fiskveiða. (Gripið fram í: Framsali.) Við ætlum að byggja væntanlega á aflareglum og öðru slíku, (Gripið fram í: Framsali.) og framsal meira að segja leyft á gildistíma upphafsnýtingarleyfanna hvað sem síðar verður. Hv. þingmaður finnur þeim orðum sínum ekki stoð að það sé verið að kollvarpa þessu.

Við erum hins vegar að tala um aðra umgjörð hvað varðar skilgreiningu á þeim réttindum sem menn fá, að búa um þau í nýtingarleyfum til afmarkaðs tíma og að til komi greiðsla á auðlindagjaldi, að auðlindarentan gangi til eigandans að uppistöðu til, þ.e. þjóðarinnar. Viðfangsefni okkar er þá að afmarka það betur og sættast á ef það skyldi vera í boði að finna hvar hin hóflegu mörk liggja í þeim efnum. Það er viðfangsefni sem á ekki að vefjast fyrir mönnum ef menn eru sammála um grundvallarsjónarmiðin. (Forseti hringir.) Ef menn eru það ekki, ef menn telja að útgerðin eigi ein að njóta allrar auðlindarentu, vandast málið náttúrlega. (Gripið fram í: Sovét…) Ég er búinn að svara hv. þingmanni.