140. löggjafarþing — 81. fundur,  30. mars 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[11:41]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að svigrúm til hækkunar veiðileyfagjaldsins haldist mjög í hendur við umgjörð greinarinnar að öðru leyti. Það sem er líka slæmt en ég kom ekki sérstaklega inn á í máli mínu áðan er að samhliða þessu frumvarpi liggur fyrir annað frumvarp um stjórn fiskveiða þar sem mjög er dregið úr hagkvæmni veiða við landið. Í fyrsta lagi þurfa þeir sem hafa skuldsett sig undanfarin ár til að auka hagræðingu í greininni og sótt til sín heimildir, að sæta skerðingum — umtalsverðum skerðingum — vegna þess að pottarnir sem vísað var til verða stækkaðir og engu er slegið föstu um hvenær því verður í raun hætt vegna þess að greinilega stendur til að halda því áfram. Ég vísa til reglna um fyrningu við framsal og hugmynda um að stækka við pottinn þegar heildaraflamark er komið yfir ákveðin viðmiðunarmörk.

Til að svara spurningunni beint þá tel ég að hægt sé að skapa forsendur til að hækka veiðigjaldið. Það hefur legið fyrir af okkar hálfu allt frá því sáttanefndin skilaði af sér haustið 2010. Það var grunnur sem mér finnst að ríkisstjórnin hafi í raun horfið frá, illu heilli. Það hefði verið hægt að halda áfram með meginniðurstöður þeirrar vinnu og koma fram með frumvörp um þessi tvö efni, breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu annars vegar og hugsanlegar breytingar á veiðigjaldinu, en málið var tekið úr þeim farvegi. Um það vitna frumvörpin sem komu fram á þinginu í fyrra og allur aðdragandinn að þessu máli. (Gripið fram í.)

Þess vegna gerði ég aðdraganda málsins að umtalsefni í mínu máli áðan og þess vegna bíður mikil vinna hv. þingmanns sem formanns nefndarinnar sem væntanlega fær málin til sín, við að leysa úr þeirri miklu flækju sem hefur verið sköpuð.